143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir er hissa. Ég verð að segja að sjálfur er ég hissa á að hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir sé hissa því að hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir (Gripið fram í.) samþykkti ekki bara þau fjárlög sem gilda að þessu sinni heldur átti hlut í að koma þeim á. Hún er hluti af þeim stjórnarmeirihluta sem hér situr. (Gripið fram í.) Hélt hún að það mundi ekki hafa neinar afleiðingar að skera niður hjá Umhverfisstofnun? Taldi hún það? Ég verð líka að endurtaka og leggja áherslu á að ráðherra svari spurningu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur. Gerði hann sér ekki grein fyrir því hvað niðurskurðurinn hjá Umhverfisstofnun þýddi, hvert hann mundi fara? Hélt hann að það væri óvígur her af einhverjum bírókrötum sem hægt væri að segja upp á Umhverfisstofnun, að hægt væri að stöðva kannski heilbrigðiseftirlit eða einhverjar matvælarannsóknir sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur mikinn áhuga á? (Gripið fram í: … víða …) Það er ekki bara 40% niðurskurður í landvörslu í bráðamálum heldur er framtíðin í algjöru uppnámi. Öllum sagt upp, það voru skornar algjörlega niður friðlýsingar í framtíðinni. Það á til dæmis ekki, þannig að hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir verði enn þá meira hissa, að setja neinn kraft í að vinna samkvæmt lögum að friðlýsingum þeirra svæða sem eru í verndarflokki í rammaáætlun, kannski vegna þess að hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir ætlar sér að leggja rammaáætlun af í félagi við hæstv. umhverfisráðherra.

Ég lýsi eftir því að menn taki ábyrgð á þeim tillögum sem þeir samþykktu í fjárlögum og annars staðar og viti fyrir fram á hverjum niðurskurðurinn bitnar og hvernig hann kemur til og komi ekki einum og hálfum mánuði síðar og séu hissa á því sem þeir sjálfir hafa komið til leiðar með atkvæði sínu.