143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að þakka að í andsvörum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og framsögumanns málsins, hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur, kom skýrt fram hvað nefndin væri að fara, þ.e. að hún vildi að áfram yrði unnið með málið. Ég skildi nefndarálitið ekki á þann veg þegar ég las það og ég hugsaði eiginlega — og ég bið forseta velvirðingar á því að segja það: „What else is new?“ — Það þarf að svara fullt af spurningum, það er alveg ljóst.

Ráðgjafarhópurinn, sem var skipaður fyrir meira en ári, ætli það sé ekki orðið það langt síðan, og skilaði í júní sl., sagði líka að svara þyrfti fullt af spurningum og lagði fyrir hvernig mætti svara þeim. Þá segi ég alveg hreinskilnislega, virðulegi forseti, að það kom mér á óvart í haust þegar hæstv. iðnaðarráðherra vísaði málinu til þingsins. Ég hef alltaf haft þá skoðun að hæstv. iðnaðarráðherra sé verkmikil kona og kona framkvæmdanna, hún vandar sig en er ekki kona vangaveltna heldur frekar kona framkvæmda. Þess vegna kom það mér mjög á óvart þegar ljóst varð í haust, þó að það geti vissulega kallast góð vinnubrögð og um að gera að hafa þingið með og efna til samráðs, að hún ætlaði að vísa málinu til nefndarinnar. Mér fannst eins og verið væri að tefja málið, að koma í veg fyrir að haldið yrði áfram með það. En ég hafði rangt fyrir mér að því leyti til að atvinnuveganefnd hefur staðið rösklega að verki og skilar þessu áliti í febrúar. Því var vísað til hennar um miðjan nóvember, ef ég man rétt, svo að það ber að þakka.

Það kemur vissulega fram að mörgum spurningum er ósvarað og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór yfir ýmis þau atriði sem þarf að svara. Ég er sammála því en það breytir því ekki að ráðast þarf í það verk og ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að gera það í haust eða næsta vetur. Ég hefði viljað óska þess að hæstv. ráðherra, þegar hún kom hér í ræðustól áðan, hefði sagst ætla að standa rösklega að verki og einhenda sér í málið eins og sagt er, ég skildi hana hins vegar þannig að hún ætlaði ekki að gera það.

Mér finnst málsmeðferðin og viðbrögð hæstv. ráðherra í morgun benda til þess að þetta sé síður en svo mál á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Það kemur mér nokkuð á óvart vegna þess að ríkisstjórnin talar mikið um atvinnu í landinu og segir á hverjum degi að sú ríkisstjórn sem verið hafi við völd þar á undan hafi dregið lappirnar í öllum málum og ekki gert neitt að gagni og jafnvel þó að komið sé í ljós að hagvöxtur hér á landi var 3%, held ég að ég hafi heyrt, á síðasta ári. Ýmislegt hefur tekist betur en menn hafa viljað halda fram. Það kemur mér þess vegna mjög á óvart að ríkisstjórnin ætli ekki að bretta upp ermar og fá svör við þeim spurningum sem vissulega þarf að gaumgæfa.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrr í dag, að ekki þarf að vera mótsögn fólgin í því að vinna verk með hraði og vanda til hlutanna. Það er hægt að vinna hratt og vanda sig og gaumgæfa þá hluti sem þarf að gera. Nú hefur ráðgjafarhópurinn nefnt sjö atriði sem hann leggur til hvað varðar framvindu málsins og síðan leggur nefndin til sex atriði sem skoða þarf og gaumgæfa, og ég er sammála því öllu. En ég tel að ráðast eigi í þetta sem fyrst og að við eigum að standa frammi fyrir því ekki seinna en næsta haust hvort þetta sé raunhæfur möguleiki eða ekki. Við eigum ekki að vera að velta þessu fyrir okkur í marga mánuði eða jafnvel mörg ár sem mér heyrðist standa upp úr hjá hæstv. ráðherra hér í dag, að henni lægi ekkert á í þessum efnum.

Þessu vildi ég koma á framfæri við umræðuna á þessu stigi málsins.