143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:24]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins hnykkja á því sem ég sagði í ræðu minni áðan þegar ég mælti fyrir nefndarálitinu, og kannski skýra þá mismunandi afstöðu sem ég skynjaði þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór í andsvör og það sem hv. þingmaður nefndi hér.

Við í Bjartri framtíð lögðum fram þingsályktunartillögu sem við í atvinnuveganefnd fórum í gegnum samhliða þessu máli. Það var þegar skýrslan frá ráðgjafarhópnum kom fram. Hún hljóðaði upp á það að fela ráðherra að fara strax að vinna að þeim sjö tillögum sem fram komu þar. Ráðherra valdi að senda skýrsluna inn í þingið, fannst það vera betri leið og það er svo sem bara skiljanlegt. Henni fannst það vera lýðræðislegra. Ég er ánægð með að við í atvinnuveganefnd skyldum vinna það mál mjög hratt og vel. Ég er ánægðust með að samhljómur var í áliti okkar þó svo að sumum þingmönnum sem áður hafa talað hér heyrðist sá samhljómur ekki vera nógu sterkur eða nógu mikið í samræmi við skoðanir sínar.

Ég held að mestu máli skipti að við séum sammála um þetta og þau skilaboð koma mjög skýrt fram til ráðherra að hún haldi málinu áfram. Önnur leið hefði verið að hætta og draga úr þessu verkefni en það varð ekki niðurstaðan. Niðurstaðan varð sú að hvetja ráðherra til að halda áfram og hefur hún móttekið þau skilaboð.