143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist viss um að hæstv. ráðherra hafi meðtekið skilaboðin en ég held líka að það sé vegna þess að komið hefur mjög skýrt fram í máli framsögumanns við umræðurnar í dag að þetta eru skilaboðin. Ég endurtek að þegar ég las nefndarálitið fyrst þá voru það ekki þau skilaboð sem blöstu við mér, en nú hefur það hins vegar verið staðfest.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað er best að vinna að máli í sátt og samlyndi, (Gripið fram í.) ég er alls ekki að gera lítið úr því. Ég vil endurtaka að mér finnst hv. atvinnuveganefnd hafa staðið sig vel og unnið þetta verk mjög rösklega og þarf út af fyrir sig ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég var sátt að sjá svo hvernig hæstv. ráðherra ákvað að hraða málinu og hún mun þá vinna það. Mér er auðvitað líka kunnugt um að Björt framtíð lagði fram þingsályktunartillögu um þetta mál. Við höfum kannski svolítið ólíkar skoðanir á því hvað á að kveða fast að orði, ég og hv. þm. Björt Ólafsdóttir, en ég held að við séum alveg sammála í þessu máli. Ég hefði kosið að kveðið hefði verið fastar að orði í nefndarálitinu.