143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ákaflega leitt að heyra að hv. þingmaður hafi upplifað það þannig að hann hafi farið héðan úr ræðustól fleiðraður eftir klasasprengjur. Mér fannst við eiga í ágætasta samtali hér í morgun og vissi ekki að hv. þingmaður væri orðinn svona viðkvæmur. Ég bið hann forláts ef ég hef fleiðrað hann með orðum mínum.

Það er ýmislegt í ræðu hv. þingmanns — og ég þakka honum fyrir þátttöku hans í þessu og þá efnispunkta sem hann kom með hér inn í umræðuna sem eru allir góðra gjalda verðir og fínt innlegg í umræðuna. Mig langar að gera athugasemd við nokkur atriði.

Hv. þingmaður sagði að það eina sem hefði áunnist með skoðun þingsins væri að við hefðum tapað sex mánuðum í þessu máli. Þar er ég allsendis ósammála. Ég get ekki fengið mig til þess að skilja hvernig hv. þingmaður, sem kemur úr stjórnmálaflokki sem talar stundum mikið, á tyllidögum að minnsta kosti, um umræðustjórnmál, getur sagt að lýðræðisleg umræða — lýðræðisleg skoðun á risastóru álitamáli sem skiptar skoðanir eru um og mörg sjónarmið eru um á sjálfu þinginu, í þingnefnd þar sem þingnefnd fær málið til sín, skoðar það frá þeim hliðum sem hún hefur áhuga á og kallar til gesti og fær þau sjónarmið — sé sóun á tíma og að við höfum tapað hálfu ári.

Ég gæti ekki verið meira ósammála. Mér finnst þvert á móti hafa komið út úr þessari skoðun, og ég deili þeirri skoðun með hv. framsögumanni nefndar, samstaða í nefndinni, komið í ljós að fulltrúar allra flokka, sem tóku þátt í þessari vinnu, vilja að málið verði skoðað áfram. Fyrir mig sem ráðherra þessa málaflokks finnast mér það sterk skilaboð frá þinginu og ég held að þessum sex mánuðum hafi verið mjög vel varið.