143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki svo að hæstv. ráðherra þurfi að biðja forláts á þeim tökum sem hún hefur tekið mig. Ég er vanur þeim. En hitt er það, eins og þingheimur veit, að ég er viðkvæm sál sem ber að umgangast af mikilli nærgætni.

Varðandi umræðustjórnmálin vísa ég bara til hæstv. forseta, hann getur borið vitni um að ég er kannski ekki upphafsmaður þeirra og hef ekki alltaf hagað þátttöku minni í stjórnmálum þannig að hægt sé að kalla mig umræðustjórnmálamann. En það er nú hægt að kenna gömlum hundi að sitja, hver veit nema ég á seinni árum taki það upp.

Að öðru leyti er skoðanamunur á milli mín og ráðherra. Ég hef tekið þátt í þessari umræðu, gerði það líka meðan ég gegndi parti af framkvæmdarvaldinu og var iðnaðarráðherra. Ég tel að það sé ákaflega margt sem mæli með lagningu strengs. Það var prýðileg skýrsla sem kom hér inn fyrir sex mánuðum eða svo, sem ég las. Ég tók þátt í umræðum um hana, þekki hana vel. Ég hafði líka lesið skýrslu sem gefin var út á vegum Landsvirkjunar. Ég átti, bæði á meðan ég var ráðherra og eftir, fundi með Landsvirkjun um þetta mál því að ég er áhugamaður um það.

Ég sé ákaflega fátt í áliti nefndarinnar, hvað sem mönnum finnst um það, sem bætir einhverju við niðurlagsorð og samantektina í skýrslunni og ábendingarnar þar. Hugsanlega hefur orðið einhver meiri sátt um málið. Rifja ég upp hina fyrri umræðu. Þar voru menn með tiltölulega skýrar skoðanir. VG hefur fyrir sitt leyti lýst sínum dálítið vel hér í dag. Þá var einn flokkar algjörlega á móti, hver einasti maður sem tók þátt í umræðunni, það var Framsóknarflokkurinn. Hann hefur ekki lýst skoðun sinni hér í dag enn þá (Gripið fram í: En mun gera það …) og kannski hefur hann breytt um skoðun. Hann hefur oft í sögu sinni skipt um skoðun með heillavænlegum árangri, kannski ekki nógu oft. Lengi má manninn reyna.

Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að (Forseti hringir.) við höfum tapað sex mánuðum. Við höfum kannski ekkert (Forseti hringir.) unnið, en það á vonandi eftir að koma í ljós að við höfum (Forseti hringir.) þrátt fyrir allt unnið ástir (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Við skulum sjá til.)