143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:53]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hin viðkvæma sál, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ætti kannski að kíkja á þá sem skrifa undir nefndarálitið. Ég vek athygli á því að þar eru bæði fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins. Það er raunar þannig að sá eini sem ekki skrifar undir þetta álit er samflokksmaður hv. þingmanns; mér skilst að hann sé sammála álitinu en hann var fjarverandi þegar undir það var skrifað. Þannig að ég get nú ekki alveg séð ágreininginn sem hv. þingmaður er að reyna að búa hér til.

Hafa verður í huga að þetta mál er þannig vaxið að það er algjörlega eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á því. Það er algjörlega eðlilegt vegna þess að það eru ótal sjónarmið sem þarf að skoða og hafa í huga. Það er nákvæmlega sú leiðsögn sem þingið er að gefa.

Hv. þingmanni kann að þykja sex mánuðir vera úrslitatími í þessu máli. Ég er því ekki sammála. Ef þetta er skynsamlegt, ef sú rannsókn sem við setjum í gang og skoðun á þessu máli sýnir að þetta er skynsamlegt, að þetta er hagkvæmt til lengri tíma, trúi ég því, og lýsi því hér yfir, að það hlýtur að þurfa að vera skynsamlegt til lengri tíma en til sex mánaða þegar við lítum í baksýnisspegilinn eða fram á veginn.

Þetta er risamál, hv. þingmaður. Þetta er mál sem hefur komið upp einu sinni á tíu ára fresti frá 1960 að minnsta kosti. Það hefur verið skoðað. Nú ætlum við að skoða það. Tæknin hefur breyst. Aðstæður í orkuumhverfinu hafa breyst. Og hv. þingmaður rakti það ágætlega. Ég fór yfir það, það eru að verða breytingar á stefnu Evrópusambandsins. En ef glugginn er að lokast núna á sex mánuðum finnst mér ekki verið að byggja á traustum grunni heldur frekar á sandi.

Ég held að þessi gluggi sé ekkert að lokast. Ég held að sú niðurstaða sem hér er fengin, þ.e. að menn eru sammála um að halda málinu áfram, (Forseti hringir.) sé hin ágætasta niðurstaða, vegna þess (Forseti hringir.) að þá getum við kannað til þrautar hvort (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) skynsamlegt sé að ráðast í þetta.