143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig ætíð þegar eftirspurn er eftir framsóknarmönnum og skoðunum þeirra (Gripið fram í: Alltaf …) og í hvert skipti sem ég verð þess var skunda ég á vettvang sem mest ég get. Ég kann því hv. þingmanni miklar þakkir fyrir að hafa sært upp sofandi draug, eins og Megas orðaði það einhvern tímann.

Mig langar í stuttu andsvari — ég mun gera grein fyrir skoðunum mínum og flokksins á eftir í ræðu — að spyrja hv. þingmann: Hvað liggur honum svona lífið á að hann telji að sex mánaða umfjöllun Alþingis um þetta stóra mál sé að verða til þess að við missum af einhverju stórkostlegu tækifæri? Veit þingmaðurinn um einhverja stóra orkukosti sem endast Evrópumönnum og mannkyni langt fram í aldir sem við erum að missa af núna af því við viljum ekki hlaupa í það að leggja sæstreng til Evrópu?

Ég tók eftir því að hv. þingmaður minntist á gasvinnslu úr jarðlögum eða „fracking“ svokallað. Af því sem ég hef kynnt mér það mál, sem er nú ekki mjög mikið, skilst mér að það sé ekki nema tímabundin auðlind. Því velti ég fyrir mér af hverju þessum virta vísindamanni, sem hv. þingmaður er, er svona brátt að taka ákvörðun í málinu í stað þess að taka yfirvegaða og vandaða ákvörðun. Mig fýsir mjög að heyra hvað hv. þingmaður hefur um þetta að segja.