143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fram að þessum punkti umræðunnar hef ég talið það já, að þeim tíma hafi verið illa varið. Það er eitt sem getur breytt þeirri afstöðu minni, það er ræða hv. þingmanns hér á eftir ef í ljós kemur eins og gefið var til kynna með frammíköllum áðan að umræðan í nefndinni hafi leitt til þess að Framsóknarflokkurinn hafi skipt um skoðun. Þá fellst ég á að þeim sex mánuðum hafi verið vel varið.

Munurinn á mér og framsóknarmönnum er töluverður. Einn fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins gat sér helst orð fyrir það þegar hann lýsti framkvæmdahraðanum á sjálfum sér í sínu eigin ráðuneyti og sagði að hann væri stoltur af því að ferðast á hraða snigilsins. Sú regla gildir ekki í mínum flokki. Ég vil vinna vel en hratt.

Annar grundvallarmunur er líka á mér og kjósendum Framsóknarflokksins. Hann er sá að ástúðin sem býr í mínu hjarta gagnvart Framsóknarflokknum er löng og varanleg, en kjósendur voru ákaflega fljótir að hopa frá Framsóknarflokknum að loknum kosningum.