143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að ég verði virkilega neikvæður langar mig að benda á að nú í ár eru einmitt 100 ár liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar þar sem Evrópa var lögð í rúst hið fyrra skipti af tveimur á 50 ára tímabili. Það sem einu sinni hefur gerst getur alltaf gerst aftur þannig að það er ekki af engu sem manni finnst að við eigum ekki setja allt okkar traust á Evrópu eina, við vitum ekki hvað getur gerst þar.

Hitt er svo annað að þetta mál hefur hingað til borið dálítinn keim af því að vera á forræði Landsvirkjunar. Landsvirkjunarmenn hafa verið mjög stórhuga, þeir fara með himinskautum og sjá sér miklar tekjur og hafa á stundum talað eins og þeir séu ekki alveg í tengslum við annað hér á landi. Þeir hafa vegið og metið, að mér finnst, kosti þessa sæstrengs með hagsmuni Landsvirkjunar fyrir augum. Vissulega kemur arðurinn af starfsemi Landsvirkjunar þjóðarbúinu að gagni og mér hefur fundist umræðan hingað til bera þess dálítið vitni.

Þess vegna fagna ég því að nú er sameiginleg niðurstaða á Alþingi að loka engum dyrum, halda áfram, en taka kannski málið úr þessum himinskautaleiðangri, færa það niður á jörðina og að menn taki sér þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að taka góða og rétta ákvörðun. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það.