143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

virðisaukaskattur.

289. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Oddný Harðardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Það stendur svo í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„1. gr.

Á eftir 9. mgr. 42. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Endurgreiða skal virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn.

2. gr.

Lög þessi taka gildi 1. janúar 2015.“

Um nokkurra ára skeið, eða frá árinu 2009, hefur verið í fjárlögum svokölluð heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn og hefur hún verið nýtt í því skyni af þeim sem í hlut eiga. Fjárhagsleg áhrif endurgreiðslunnar á afkomu ríkissjóðs eru óveruleg sökum þess hve lág heildarupphæð endurgreiðslunnar er ár hvert, en hins vegar getur hún skipt miklu fyrir fatlað íþróttafólk sem losnar þá við virðisaukaskattsgreiðslur af sérhæfðum búnaði sem íþróttaiðkun þeirra krefst.

Íþróttir er hugtak sem nær yfirleitt yfir starfsemi skipulagðra íþróttafélaga. Íþróttir eru skilgreindar sem hreyfing sem stunduð er við þjálfun og/eða keppni á vegum íþróttasamtaka. Innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru 28 sérsambönd. Þessi sérsambönd eru regnhlífarsambönd þeirra íþróttagreina sem eru aðilar að ÍSÍ og sjá um skipulagningu móta í öllum greinum m.a. í samvinnu við íþróttafélögin á hverju svæði. Íþróttafélögin bjóða síðan upp á íþróttastarf í sveitarfélögum og þau styðja líka flest íþróttastarfið í nærumhverfi sínu þannig að sem flestir geti stundað íþróttir við sitt hæfi. Það vitum við og þannig er íþróttastarfið líka skipulagt á landsvísu.

Það er ekki sjálfsagt að allir geti stundað íþróttir eða hreyft sig vel. Fjölmargir einstaklingar í samfélaginu búa við ýmiss konar fötlun sem getur dregið úr hæfi til íþróttaiðkunar. Fyrir þá er ekki síður mikilvægt að fá góða hreyfingu og halda sér í formi og ekki má gleyma félagslega þættinum.

Eitt af markmiðum Íþróttasambands fatlaðra, sem er innan Ólympíusambands Íslands, er að gera fötluðum einstaklingum kleift að stunda íþróttir og taka þátt í keppnum hér heima. Einnig er sambandið aðili að fjölmörgum erlendum íþróttasamtökum fatlaðra sem gerir einstaklingunum mögulegt að taka þátt í mjög mörgum keppnum erlendis.

Virðulegi forseti. Til þess að geta verið virkur aðili og tekið þátt í daglegu lífi til að efla heilsu og færni, njóta útivistar með vinum og fjölskyldu, fara í sumarbúðir eða taka þátt í alþjóðlegu starfi á jafnréttisgrundvelli, þarf fatlaður einstaklingur oft að leggja fram mikla peninga til að kaupa sér viðeigandi búnað. Það getur orðið mjög íþyngjandi þannig að viðkomandi getur jafnvel þurft að hætta við að fjárfesta í þessum búnaði. Það er því mikils virði fyrir þá einstaklinga sem þurfa að kaupa þessi tæki, þennan sérhannaða og oft dýra búnað, að þeir geti gengið að því vísu að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af honum.

Í dag eru akkúrat 22 dagar þangað til vetrarólympíumót fatlaðra verður sett í Sochi í Rússlandi. Íslenski hópurinn dvelur í Mountain Village meðan á mótinu stendur, en það er á Krasnaya Polyana-svæðinu. Fyrir okkar hönd keppa þar í alpagreinum Erna Friðriksdóttir frá Egilsstöðum og Jóhann Þór Hólmgrímsson frá Akureyri. Þau eru bæði hreyfihömluð og keppa í sérhönnuðum skíðabúnaði, monoski. Undanfarin ár hafa þau æft og keppt í Winter Park í Colorado, m.a. undir handleiðslu þjálfara bandaríska ólympíuliðsins.

Við vitum líka að ýmsar aðrar þarfir eru til staðar í íþróttum fatlaðra og afreksstarfið kostar líklega meira fyrir fatlaða íþróttamenn en aðra, til að mynda hvað varðar undirbúning og þátttöku á Ólympíuleikum fatlaðra m.a. vegna þess að það þarf gjarnan fleiri aðstoðarmenn. Íþróttasamband fatlaðra hefur áætlað að æfingar, undirbúningsmót og þátttökukostnaður vegna þessara vetrarólympíuleika kosti u.þ.b. sex og hálfa milljón fyrir sambandið.

Fulltrúar okkar í þessum hópi verða á ferðinni víða þetta árið. Meðal annars er Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum í Bretlandi og Evrópuleikar, Special Olympics í Belgíu, þar sem gert er ráð fyrir að 35 einstaklingar með þroskahömlun taki þátt.

Ég er sannfærð um að við eigum mikla möguleika á þeim vettvangi. Það sýndum við m.a. með þátttöku á síðustu Ólympíuleikum þar sem einstaklingar unnu gullverðlaun. Íþróttasamband fatlaðra hefur sýnt í verki að það hefur mikinn metnað í þessum málum og einnig í því að fylgja eftir því máli sem við ræðum hér fyrir skjólstæðinga sína. Við getum öll verið þakklát fyrir þann mikla metnað sem sambandið hefur sýnt. Ég held að það séu líka miklir möguleikar og tækifæri fram undan.

Ég hvet þingmenn til að fylgjast með okkar ágætu fulltrúum í sjónvarpinu þegar keppnin fer fram eftir 22 daga.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessi mál. Með þessu frumvarpi er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af sérhæfðum búnaði fyrir fatlaða íþróttamenn verði fest í sessi í lögum um virðisaukaskatt þannig að fatlað íþróttafólk geti gengið að henni vísri í framtíðinni í stað þess að búa við það fyrirkomulag sem nú er, að setja þurfi inn heimildir við hver fjárlög.

Að lokinni þeirri umræðu sem hér fer fram legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.