143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

virðisaukaskattur.

289. mál
[16:10]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Já, það háttar þannig til að þetta var eiginlega fyrsta málið sem var í raun og veru tekið upp við mig eftir að ég kom hingað inn á Alþingi, þ.e. hvort ekki væri hægt að beita sér fyrir því að virðisaukaskattur á búnað fyrir fatlaða íþróttamenn yrði felldur niður.

Ég eins og margir nýir þingmenn snerist í marga hringi og vissi eiginlega ekki alveg hvernig ég átti að snúa mér í málinu og vann ekkert sérstaklega hratt í því, en ég var alltaf einhvern veginn að láta í mér heyra varðandi það en kannski ekki á réttum stöðum. Þess vegna fagnaði ég því mjög að sjá þetta frumvarp og þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur og öðrum meðflutningsmönnum hennar kærlega fyrir að koma þessu í þennan fína farveg. Þetta er mál sem án vafa á að vera í föstum skorðum. Þetta hefur þýtt mikil óþægindi fyrir fatlaða íþróttamenn. Þessi tæki gefa börnum, unglingum og fullorðnu fólki með hreyfihömlun sömu tækifæri eða hjálpar til þess að gefa þeim sömu tækifæri og öðrum til íþrótta og útivistar til að stuðla að bættri heilsu, bættum lífsgæðum og auknu sjálfstæði. Það er því mjög mótsagnakennt að á sama tíma og íslenska þjóðin er hvött til aukinnar hreyfingar skuli þetta mál ekki vera í ákveðnum farvegi. Því er mjög gott að það verður það.

Ég mun fyrir mitt leyti — mér sýnist vera mikil og góð samstaða um málið í öllum flokkum á þingi — halda áfram að snúa mér í hringi og reyna að koma því til leiðar að þetta verði til framtíðar inni í okkar fjárlögum þannig að við þurfum ekki á hverju hausti að fara í gegnum það að passa að þetta sé örugglega inni.