143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs. Ég segi eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls, virðulegur forseti, ég fagna þessu frumvarpi.

Í fjárlaganefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili var um það rætt að frumvarp þessa efnis væri á lokametrunum og ætti að leggja fram á síðasta vetri síðasta kjörtímabils. Einhverjir guggnuðu þá. En það er alveg ljóst, virðulegur forseti, það vorum ekki við sjálfstæðismenn sem sátum í þeirri nefnd, það voru aðrir, og þeir guggna enn, virðulegur forseti. Þeirra nöfn og þeirra flokka er ekki að sjá hér á þessu frumvarpi. Það segir kannski, virðulegur forseti, meira en mörg orð (Gripið fram í.) um þá ólíku nálgun sem fólk og þingmenn hafa til fjárlaga, fjárlagagerðar og hvernig halda á utan um skattfé almennings. (Gripið fram í: Rétt.)

Þess vegna er ljóst að þetta frumvarp á sér allnokkurn aðdraganda vegna þess að til er fólk sem telur æskilegt að draga úr þeirri víðtæku mörkun ríkistekna sem lengi hefur viðgengist. Og hvers vegna er það svo, virðulegur forseti? Í fyrsta lagi til að einfalda og styrkja fjárstjórnarvald Alþingis og fjármálastjórn stjórnsýslunnar. Getur einhver lagst gegn því?

Í öðru lagi til að draga úr ógagnsæi og sveiflum sem þetta fyrirkomulag veldur í fjárreiðum þeirra aðila sem tekjurnar renna til. Getur einhver lagst gegn því?

Í þriðja lagi til að allar stofnanir ríkissjóðs sitji við sama borð þegar kemur að ákvörðun fjárheimilda og aðhaldsráðstafana. Getur einhver lagst gegn því? Það verður fróðlegt að sjá, virðulegur forseti, þá þingmenn sem geta lagst gegn meginmarkmiðunum sem frumvarpinu er ætlað að ná.

Virðulegur forseti. Markaðar tekjur er kannski hugtak sem fæstum er kunnugt og kannski ekki því fólki sem borgar og greiðir þessar mörkuðu tekjur, almenningi í landinu. Þetta eru lögþvingaðar ríkistekjur sem samkvæmt sérlögum eru sérstaklega eyrnamerktar til að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða rekstur stofnana.

Markaðar tekjur skiptast í tvo meginflokka. Annars vegar er um að ræða skatttekjur sem ráðstafað er til tiltekinna verkefna án þess, og ég legg á það áherslu, að veitt sé þjónusta á móti tekjum. Í öðru lagi eru þetta rekstrartekjur ríkissjóðs sem einnig eru lögþvingaðar en þá er skilyrt að á móti komi þjónusta stofnunar.

Markaðar tekjur eru af margvíslegum toga og eru tilgreindar í fjölda sérlaga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mörgum lögum til þess að ná yfir allan hóp markaðra tekna í því skyni að leggja þær af. En það ber þó að leggja á það áherslu að þó að hætt verði að færa markaðar tekjur með þeim hætti sem gert er í dag detta þær hvergi dauðar niður, þær renna í ríkissjóð og yrði úthlutað þaðan á fjárlögum hvers árs.

Virðulegur forseti. Við höfum undanfarin ár og áratugi unnið að fjárlögum hvers ár. Þau hafa að jafnaði verið afgreidd í desember og ríkisstofnanir hafa fengið fjármuni til þess að inna sína þjónustu af hendi. Síðan höfum við búið við þann ósóma, ef svo mætti kalla, að á hverju ári í október, nóvember komum við hér með fjáraukalög til þess að bæta í þau fjárlög sem afgreidd voru í desember á fyrra ári til þess að koma til móts við þá sem hafa eytt um efni fram. Ekki alltaf til að standa undir, eins og fjáraukalögum var ætlað að gera hér einu sinni, óvæntum atvikum, aldeilis ekki. Oft bara vegna þess að stofnanir hafa keyrt fram úr fjárlögum, sem er óheimilt í raun en aldrei tekið á því.

Í þriðja lagi afgreiðum við svo lokafjárlög hvers árs. Þá erum við búin að samþykkja fjárlögin, búin að samþykkja fjáraukalögin. Síðan koma lokafjárlög og hvernig líta þau út? Ekki eins og fjárlögin og fjáraukalögin heldur hugsanlega einhvern veginn allt öðruvísi.

Virðulegur forseti. Þau vinnubrögð sem tíðkast hafa hjá okkur eru ekki boðleg. Þau hafa aldrei verið það og eru það ekki frekar nú. Þau sýna agaleysi í ríkisfjármálum, þau sýna agaleysi í rekstri stofnana og þau sýna fullkomið virðingarleysi við skattfé almennings. Við verðum að breyta þessu. Og það er ekki nóg, virðulegur forseti, að tala um það hverju sinni að þessu þurfi að breyta en hafa sjaldnast kjark til þess að ganga í verkið.

Af hverju skyldu Svíar vera á þeim stað í dag að fjáraukalög eru ekki til? Þau eru ekki til. Vegna þess að þeir fóru í gegnum verklagið og verkferla og breyttu því og sýna aga í fjármálum. Það er ekki alltaf sem ég er sammála öllu því sem gerist í Svíþjóð eða hefur gerst þar í gegnum tíðina en þessu, virðulegur forseti, er ég hjartanlega sammála og tel að þarna gætum við leitað í smiðju þeirrar ágætu þjóðar.

Virðulegur forseti. Það fer sjálfsagt ekkert á milli mála að sú sem hér stendur talar fyrir því að þetta frumvarp fái framgöngu og því verði lokið fyrir fjárlagagerð næsta árs. Það er grunnurinn.

Veltum þá fyrir okkur: Hver gæti orðið ávinningurinn af þessum breytingum? Af hverju er verið að fara í þennan leiðangur? Og ég minni enn á að það guggnuðu sumir, höfðu ekki kjark til þess að fylgja því eftir sem þeir vildu á síðasta kjörtímabili og réðu þá för. Þá guggnuðu þeir á síðustu mínútunum og metrunum og þeir guggna enn.

Ávinninginn, virðulegur forseti, fyrir íslenska þjóð má draga saman í nokkrum setningum. Ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum yrðu eingöngu teknar á fjárlögum og hugsanlega í fjáraukalögum, kannski fyrstu árin á eftir en vonandi síðar aldrei í fjáraukalögum.

Óvissu yrði eytt um það hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. Ég horfi hér á hægri hönd á ungviðið sem á að erfa landið, sem skilur kannski ekki margt af því sem hér er sagt en hagurinn verður þess.

Útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna stofnana leggst af. Hugsanlega gætu eftiráheimildir í lokafjárlögum lagst af. Það er alveg ljóst að þetta einfaldar fjárlagagerð og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga.

Þetta styrkir og einfaldar fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild. Þetta styður við útgjaldamarkmið rammafjárlagagerðar, virðulegur forseti, og síðast en ekki síst styður við fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis. Hver getur lagst gegn þessu?