143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil láta nokkur orð falla um það mál sem hér er til 1. umr. Oft hefur verið kallað eftir því og talað um að skynsamlegt sé að draga úr mörkuðum tekjustofnum og auka með því hagstjórnar- og fjárstjórnarvald Alþingis. Fyrir því hafa oft verið færð skynsamleg rök. Ég held að margt megi færa fram sem sé skynsamlegt á þeim grunni.

Ég hef hins vegar efasemdir um að búa mál út með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu því að hér sýnist mér menn túlka hugtakið „markaðir tekjustofnar“ með alveg gríðarlega víðtækum hætti og fella undir það mjög ólíka hluti sem lúta að sumu leyti t.d. að samningsbundnum verkefnum sem byggja á kjarasamningum, í öðru lagi verkefnum sem eru tímabundin í eðli sínu og er þar af leiðandi ýmislegt sem mælir með því að þau séu fjármögnuð utan hins almenna fjárstjórnarvalds, og svo í þriðja lagi verkefnum sem lúta sérstökum alþjóðlegum reglum.

Ég á t.d. erfitt með að tala um Atvinnuleysistryggingasjóð sem markaðar tekjur ríkisins svona almennt séð út frá sögu atvinnuleysistrygginga og út frá séreðli þeirra, og hvað þá gjald í Ábyrgðasjóð launa, sem er í reynd tryggingagjald sem allir greiða í og stendur til tryggingar launagreiðslum.

Ég spyr í því samhengi hvernig menn sjái þá fyrir sér samhengið að þessu leyti vegna þess að það er ýmislegt sem mælir með sjóðsöfnun t.d. í Atvinnuleysistryggingasjóð. Flest mælir með því að hún eigi sér stað með jöfnum hætti vegna þess að ríkissjóður er almennt ekki aflögufær á tímum mikils atvinnuleysis, það er hin almenna efnahagslega staðreynd ef horft er 100 ár aftur í tímann.

Ég skoðaði frumvarpið í drögum og mig minnir að þar sé líka fjallað um Fjármálaeftirlitið og að gjöld fjármálafyrirtækjanna, eftirlitsgjöldin, renni í ríkissjóð. Ef ég man rétt var málum stillt upp þannig við setningu þeirra laga að fyrirkomulag gjaldtökunnar með þeim hætti sem þar var lagt upp með byggði á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um fyrirkomulag fjármögnunar fjármálaeftirlits og bæri að láta gjaldendur sjálfa bera kostnað af eftirlitinu. Það væri þar af leiðandi ekki skattur, það væri kostnaður við eftirlit með starfseminni.

Ég bendi líka á umboðsmann skuldara og fjárveitingar til þess verkefnis, þar sem við erum t.d. með verkefni sem er tímabundið í eðli sínu, kostar gríðarleg tímabundin útgjöld og á sama tíma skila aðilarnir sem gjaldið er lagt á gríðarlegum hagnaði tímabundið vegna endurmats eigna. Það er því gríðarlega margt sem mælir með því að leggja kostnaðinn af starfseminni, sem nýtist aðilunum sjálfum beint tímabundið.

Ég held þess vegna að skoða þurfi ýmislegt varðandi víðari umgjörð þessara mála. Ég held að ýmsir þeir þættir sem þarna eru og eru samningsbundnir, t.d. milli aðila vinnumarkaðarins, séu ekki þannig að menn séu tilbúnir að sleppa samningsbundinni umgjörð, til að mynda varðandi greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Og ef það á að vera með þeim hætti að ekki verði greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð og engin sjóðsöfnun þar munu menn búa til sjálfstæðan atvinnuleysistryggingasjóð utan ramma ríkisreiknings með einhverjum hætti, því að það þarf með einhverjum hætti að spara til mögru áranna. Ríkissjóður er bara ekki í færum til að greiða þegar kemur til mögru áranna.

Það er ágætis hugsun í þessu máli. Fæðingar- og foreldraorlofssjóður er annað dæmi. Ég held einfaldlega að það þurfi að passa hér embættislega vanahugsun. Auðvitað er það almennt viðhorf að í stjórnkerfinu finnist mönnum bara gott að losna við markaða tekjustofna því að það gerir málið allt einfaldara og þægilegra og það er meiri yfirsýn. Það er meiri yfirsýn í fjármálaráðuneytinu, það er meiri yfirsýn af hálfu fjárlaganefndar. Það er ekki endilega þannig að það sé pólitískt rétt að gera það eða að það sé pólitískt kleift að gera það, og ólíkt á við um ólíka gjaldstofna og ólík verkefni að þessu leyti.