143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að þingmaðurinn orðar það svo að þetta séu bara vangaveltur í 1. umr. málsins tel ég rétt að við séum þá ekki að negla okkur í einhverjar línur eða skotgrafir. Það er athyglisvert að hv. þingmaður kemur hingað og tekur þátt í umræðunni, því ber að fagna. Það er gott vegna þess að ég undraði mig á því af hverju þetta mál stafaði ekki frá allri fjárlaganefndinni miðað við hvernig ég upplifi andann og hef upplifað andann í þinginu á undanförnum árum.

Ég hvet því hv. þingmann til að horfa til frumvarpsins í heild sinni með opnum huga. Það er auðvitað rétt að þetta er svolítið ný hugsun fyrir marga, en engu að síður hef ég sannfæringu fyrir því að rétt sé að samþykkja frumvarpið og að það fari í gegnum þingið í þeirri mynd sem það liggur fyrir. Ég tel að það sé mjög vel rökstutt í greinargerðinni hvers vegna skilgreining á mörkuðum tekjum er með þeim hætti sem hún kemur fram og er meðal annars vísað í stjórnarskrána í þeim rökstuðningi.