143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu. Ég hef tiltölulega stuttan tíma. Ég ætla að nota tækifærið og taka undir flest það sem kom fram hjá hv. þingmönnum, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það kemur kannski ekki á óvart. En um leið fagna ég þátttöku hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Steingríms J. Sigfússonar. Þrátt fyrir að þeir hafi væntanlega ekki haft tækifæri til að fylgjast með umræðunni, og þess vegna kom ýmislegt fram í máli þeirra sem hafði komið fram áður, þá finnst mér góður bragur á því að hv. þingmenn taki þátt í umræðunni. Mér fannst flestar athugasemdir þeirra og ummæli í ræðu vera málefnaleg og þess virði að fara sérstaklega yfir. Ég ætla að fara yfir þær athugasemdir sem hv. þingmenn komu með.

Fyrst, svo ég byrji á því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon endaði á, að það skipti máli að flýta sér hægt. Það getur enginn haldið því fram að í þessu máli hafi verið gengið mjög hratt fram. Það er búið að vera í vinnslu hjá hv. fjárlaganefnd allt sl. ár. Eins og menn vita, og hefur komið fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og öðrum, var málið á lokametrunum hjá síðustu fjárlaganefnd og hafði þá verið lengi til umræðu.

Hérna er ákveðinn misskilningur í gangi. Hingað kom t.d. hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er vonandi að fylgjast með þessari umræðu, og talaði um að mikilvægt væri að hafa Atvinnuleysistryggingasjóð með sérstakar markaðar tekjur til að hafa sjóðsöfnun. Vandinn er sá að það hefur ekki verið sjóðsöfnun hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það eru engir peningar í honum. Það sama á við um Ábyrgðasjóð launa og flesta hina svokölluðu sjóði sem þarna eru, það eru ekki neinir peningar í þeim. Það þurfti t.d. að hækka tryggingagjaldið úr 5,3% í 8,65% eftir bankahrunið.

Ef við komumst að þeirri niðurstöðu — ég ræddi það að vísu alveg sérstaklega í framsöguræðu minni, þá fór ég yfir þennan þátt — að það sem við viljum hafa og skiptir máli sé að hafa sjóð sem snúi t.d. að aðilum vinnumarkaðarins þá skulum við bara gera það. Ég nefndi það sérstaklega að ég væri, alla vega fyrir mitt leyti, tilbúinn að skoða það og að það væri þá gert með svipuðum hætti og við gerum með lífeyrissjóðina sem eru að stærstum hluta á hendi aðila vinnumarkaðarins til að koma í veg fyrir, af því að hv. þm. Árni Páll Árnason vitnaði í það, að ríkissjóður tæki það á sig þegar kæmi að mögru árunum. Það er einmitt málið, það er ekkert í þessum sjóðum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi Fæðingarorlofssjóð og Framkvæmdasjóð aldraðra og ég veit ekki til að það séu einhverjir peningar í þeim sjóðum. Reyndar hef ég áhyggjur af því að í Framkvæmdasjóð aldraðra séu menn að taka lán. Ég held að flestir sem hafa lesið þetta, þ.e. nöfnin, telji að þarna sé um sjóði að ræða sem séu að ávaxta fé, ég veit ekki til þess að svo sé. Það er afskaplega mikilvægt að fara yfir það. Þess vegna er málið lagt fram og fara þarf gaumgæfilega yfir það.

Aldrei var sagt að þetta mundi leysa allan vanda. Þetta er hins vegar án nokkurs vafa liður í því að ná aga í ríkisfjármálum. Rétt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði þá er fjárstjórnarvaldið hjá Alþingi. Hann talaði svolítið fyrir málinu þegar hann gagnrýndi það vegna þess að menn hafa miskunnarlaust, þegar svo ber undir, gengið í markaða tekjustofna. Hv. þingmaður nefndi t.d. útvarpsgjaldið sem er að vísu ekki í þessu frumvarpi. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að 77% af útvarpsgjaldinu hafi farið í Ríkisútvarpið 2009, 95% 2010, 79% 2011, 75% 2012, 77% 2013 og núna 2014 var það hækkað upp í 83% þannig að menn hafa sótt fjármagn þangað, Alþingi hefur gert það þegar svo ber undir. Það er ekki um það að ræða, nema menn vilji blekkja almenning og ég ætla engum hv. þingmanni það, að fólk sé algerlega sátt við að greiða í einhvern sjóð eða eitthvert ákveðið verkefni sem miskunnarlaust sé gengið í ef svo ber undir.

Það sama á við um samgöngukerfið. Ég fór sérstaklega yfir það í framsögu minni. Það kemur fram í greinargerðinni að samkvæmt bókun í ríkisreikningi skuldar Vegagerðin ríkissjóði 16,1 milljarð vegna þess að Alþingi ákvað að fara í vegaframkvæmdir sem markaðar tekjur hafa ekki náð að dekka og þá varð til skuld á einhverja opinbera stofnun. Þetta er auðvitað ekkert vit og engin skynsemi. Í þessu er ekkert gagnsæi. Þetta er ekki leið til að ná þeim markmiðum sem við viljum vonandi öll í ríkisfjármálum — ég ætla öllum að vilja það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði einnig um að við þyrftum að einfalda skattkerfið og breyta tekjuöflunarkerfinu. Ég man ekki eftir því í seinni tíð að hafa verið svo sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í nokkru einasta máli. Ef við getum farið í þetta verkefni saman þá hlakka ég til þess því að það er sannarlega markmið í sjálfu sér. Menn geta deilt um hvar eigi að byrja en við verðum að byrja. Menn hafa verið með þetta mál hangandi yfir sér í mörg ár. Ég ætla ekki að benda á einn eða neinn í því, við berum öll ábyrgð hvað það varðar. Aðalatriðið er að við verðum að byrja. Menn geta ekki alltaf setið og sagt: Ja, þetta er svo ofsalega erfitt, þetta er svo stórt og svo mikið mál. Við höfum sérstöðu meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Á það hafa báðar skammstafanirnar AGS og OECD bent. Það er engin spurning að við förum ekki eftir kerfinu eins og það er núna. Við getum sagt að við svindlum á skattgreiðendum þegar svo ber undir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór nákvæmlega yfir það. Ég man ekki hvaða hugtak hann notaði en við getum alveg eins sagt að við séum að svindla svolítið á þessu kerfi. Það er svo sannarlega ekkert unnið með því að hafa færa skuld á Vegagerðina vegna þess að menn ákveða það í pólitískri sátt að fara í meiri vegaframkvæmdir en þær mörkuðu tekjur sem eru til staðar duga fyrir.

Á sama hátt er það þannig varðandi tryggingagjaldið að alltaf er að aukast munurinn á útgjöldunum sem tryggingagjaldinu er ætlað að dekka og tekjunum sem af því eru. Það er rekið sérstaklega í greinargerð með frumvarpinu. Við erum því alltaf á sama stað því að það fyrirkomulag sem er til staðar er úr sér gengið. Við höfum gert nákvæmlega allt sem hver einasti þingmaður, hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu, hefur beðið um í hv. fjárlaganefnd hvað þetta mál varðar. Það hefur ekki verið hægt að troða þessu máli ofan í kokið á einum eða neinum og það stendur ekki til að gera það.

Hér var Fjármálaeftirlitið nefnt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Fjármálaeftirlitið stækkaði um 198% á árunum 2007–2012. Þá var meðalaukning ríkisútgjalda um 30%. Það má færa full rök fyrir því að ekki hafi verið gott eftirlit með eftirlitinu af hálfu þeirra sem áttu að halda utan um þá stjórnartauma. Það er mikil sorgarsaga, sérstaklega á undanförnum árum, ýmislegt sem hefur snúið að Fjármálaeftirlitinu. Við höfum rætt það oft í þessum þingsal. Það er þyngra en tárum taki og hefur haft alvarlegar afleiðingar. Það er alveg ljóst að þau mál eru ekki búin. Þangað var alveg gríðarleg aukning í fjárveitingum. Hér tókust t.d. á hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, og hv. þm. Árni Páll Árnason, þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, um þau mál. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins kom með efnismikla og vel rökstudda gagnrýni á hvernig haldið væri um fjármál hjá Fjármálaeftirlitinu og aukningunni hvað þau varðar og ef ég man rétt, og ég held að ég fari alveg rétt með, þá tók hæstv. fjármálaráðherra frekar undir þau sjónarmið en hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra sagði bara að það væri skylda að gera þetta svona. Samt sem áður horfum við, sem áttum og eigum heimsmet í fjármálaeftirliti, upp á að ekki verður hægt að halda því fram með neinum hætti að þar hafi náðst einhver fullkomnun heldur þvert á móti. Um það eru mörg sorgleg dæmi. Ég hef oft tekið málið upp á þessum vettvangi og mun halda því áfram og ætla ekki að fara sérstaklega yfir það núna nema einhver biðji mig um það og þá er alveg sjálfsagt að fara yfir það í miklum smáatriðum.

Umboðsmaður skuldara er kannski sama marki brenndur. Nokkrir milljarðar eru búnir að fara í það ágæta embætti. Það er svo sannarlega ekki yfir gagnrýni hafið. Það sem mér finnst vera stærsta einstaka málið í þessu sambandi er að þegar við útdeilum fjármunum, eins og við gerum alltaf hvort sem það er í svokölluðu góðæri eða á samdráttartímum, og ég ætla engum á hv. Alþingi annað en vilja gera það með sem bestum hætti, þá höfum við forgangsraðað, en það sitja ekki allar stofnanir við sama borð. Þegar við skoðun þróun útgjalda á undanförnum árum sjáum við að þróunin er ekki sú sama og menn tala um. Ég held að flestir hv. alþingismenn í öllum flokkum hafi talað um að það eigi að vernda sérstaklega grunnstoðirnar en þær hafa þurft að sæta hlutfallslega mun meiri niðurskurði en ýmsar aðrar stofnanir sem ég man ekki til að nokkur hafi mælst sérstaklega til að ætti að efla eða veita meiri fjármuni í.

Gagnsæi er markmið í sjálfu sér. Ef við ætlum að ná árangri í ríkisfjármálum og betri skilningi og fara betur með opinbert fé þá er gagnsæi afskaplega mikilvægt. Það er enginn vafi á því að ef við förum þessa leið þá mun það aukast og vonandi mun aðhalds- og eftirlitshlutverk hv. Alþingis styrkjast. Ég held hins vegar akkúrat núna, af því að menn segja að þetta sé svo stórt og mikið, að við getum ekki beðið. Hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi það sérstaklega að mjög mikilvægt væri að hugsa til mögru áranna, að leggja til hliðar í Atvinnuleysistryggingasjóð þannig að þegar atvinnuleysi kæmi og erfiðara yrði fyrir atvinnulífið og þjóðlífið, ef þannig má að orði komast, að fjármagna atvinnuleysi þjóðarinnar þá ættum við eitthvað í handraðanum. Við þurfum að huga að því. Núverandi kerfi gerir það ekki. Núverandi kerfi er gegnumstreymiskerfi. Það þýðir að þegar atvinnulífið er í mestum erfiðleikum með tilheyrandi atvinnuleysi, það helst alla jafna í hendur, þá leggjum við aukin gjöld á atvinnulífið sem verður til þess að ýta enn frekar undir atvinnuleysi. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að sá tónn sem hér var gefinn af hv. stjórnarandstöðuþingmönnum sé merki þess að við munum fara vel og málefnalega yfir þetta mál. Við munum að sjálfsögðu kalla eftir sjónarmiðum þeirra aðila sem málið varða og þeir eru fjölmargir. Ég held að í þessu felist mikil sóknarfæri til að bæta fjármálastjórn í landinu eins og hv. þingmenn fóru yfir, margir hverjir. Ég vonast til að við berum gæfu til þess bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að nýta tækifærið. Það er alveg ljóst að við munum ekki ná varanlegum árangri í breyttri fjármálastjórn á Íslandi nema stjórn og stjórnarandstaða geri það í sátt.

Ég vil því nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sérstaklega, þó að ég sé einnig ánægður að heyra áhuga fjölmargra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og sumra þingmanna Framsóknarflokksins sem tóku þátt í þessari umræðu. Það sýnir að þingmenn eru meðvitaðir um mikilvægi þessa málaflokks og meðvitaðir um þetta stóra verkefni og tilbúnir að leggja hönd á plóg, tilbúnir að taka þátt í umræðunni því að það er grunnurinn að þessu, að við ræðum þessa hluti, förum yfir þá til að vanda vel til verka.

Virðulegi forseti. Ég er bjartsýnn á að þetta mál muni verða til góðs. Ég efast svo sem ekkert um að innihaldið verði til góðs en það skiptir líka máli að allir séu með í þessari umræðu, taki þátt í henni og komi að henni. Við lögðum upp með að hafa alla þingmenn í hv. fjárlaganefnd með á þessu máli. Ég leyni því ekki að það urðu mér vonbrigði að ekki voru allir hv. þingmenn á þessu máli. Það var ekkert sem benti til þess að við yrðum ekki öll sammála. Úr því varð ekki og það er ekkert meira um það að segja. Núna reynir hins vegar á hvernig við vinnum málið. Ég hlakka til að takast á við það verkefni með hv. þingmönnum sem og öðrum þeim aðilum í þjóðfélaginu sem vilja láta sig málið varða.