143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

[13:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að málið skuli þróast með þessum hætti. Ég held að óhjákvæmilegt sé, út af því að menn höfðu lagt það upp að umræða um skýrsluna færi fram á morgun, að menn taki til endurskoðunar þau áform og velti fyrir sér á vettvangi þingflokkanna, á fundi þingflokksformanna með forseta, hvert framhald málsins er, því að búið er að setja ferilinn og umsamda atburðarás í uppnám.

Það er ekki boðlegt að mál séu lögð fram og kynnt með þessum hætti vegna þess að þá sitja stjórn og stjórnarandstaða ekki við sama borð þegar kemur að umræðu. Ég hef lagt það til að menn fresti einfaldlega umræðu um skýrsluna eða velti því a.m.k. gaumgæfilega fyrir sér hvernig megi tryggja það að menn standi jafnfætis gagnvart málinu.