143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

mótmæli íslenskra stjórnvalda við mannréttindabrotum Rússa.

[13:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Formaður Ólympíunefndarinnar sagði við opnun vetrarólympíuleikanna í Sochi að gildi Ólympíuleikanna samræmdust ekki neinni mismunun og hann tiltók sérstaklega mismunun á grunni kynhneigðar. Þetta kom frá manninum sem sat við hlið Pútíns við opnunarathöfnina og í alþjóðlegum fjölmiðlum var um það rætt að hann hefði stolið senunni af Pútín sem vildi leggja allt kapp á að sýna nútímalegt Rússland.

Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða hæstv. menntamálaráðherra velkominn heim af leikunum og spyrja um leið hvort honum hafi gefist tækifæri til að koma sjónarmiðum ríkisstjórnar Íslands til mannréttindamála hinsegin fólks á framfæri á téðum leikum og þá með hvaða hætti. Fyrir mitt leyti hvatti ég í fyrri umræðu um þetta mál fulltrúa ríkisstjórnarinnar til þess að skapa sér tækifæri til að koma okkar málstað á framfæri. Það hefði mátt gera með margvíslegum hætti.

Ég vil líka segja að það er ekki of seint fyrir ríkisstjórn Íslands að taka opinbera afstöðu með mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Rússlandi. Fjölmargar ríkisstjórnir og sendinefndir komu skilaboðum sínum á framfæri með ýmsum hætti og því er spurt um frammistöðu fulltrúa ríkisstjórnar Íslands í þessum efnum. Hvernig var sjónarmiðum Íslendinga komið á framfæri og hver eru sjónarmið hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnar Íslands til mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Rússlandi?

Formaður Ólympíunefndarinnar hvatti stjórnmálamenn til þess að ræða um stjórnmál en leyfa íþróttafólkinu að gera sitt, og það er rétt hjá honum. Okkar starf er að ræða hugmyndir um samfélagið og veröldina og það á því að vera verkefni okkar stjórnmálamanna á erlendum vettvangi að vera ávallt boðberar þeirra gilda sem samfélag okkar stendur fyrir.