143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[14:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Mikil gagnrýni hefur komið frá heimamönnum þvert á flokka um þær hugmyndir hæstv. ráðherra að sameina skólann Háskóla Íslands og kallað hefur verið eftir því að leitað verði annarra lausna í samvinnu með heimamönnum. Í því ljósi er mjög umhugsunarvert að í allri umræðu um málefni skólans hefur það verið upplýst að ekki sé starfandi háskólaráð við skólann.

Samkvæmt lögum nr. 56/2013 var skipunartími þáverandi háskólaráða Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum framlengdur til 1. október 2013 eða þar til nýir fulltrúar hefðu verið valdir í háskólaráð skólans í samræmi við 6. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Nýtt háskólaráð hefur ekki verið skipað þar sem tilnefningar vantar meðal annars frá ráðherra og því má ætla að það háskólaráð sem var starfandi frá 1. október 2013 sé enn þá hið eiginlega háskólaráð við skólann samkvæmt lögum nr. 56/2013.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað veldur því að hæstv. ráðherra hefur látið hjá líða í fjóra mánuði að tilnefna fulltrúa í háskólaráð Landbúnaðarháskóla Íslands?

Hefur hæstv. ráðherra átt frumkvæði að því að stöðuskýrsla sú sem skrifstofa vísinda og háskóla mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur unnið um Landbúnaðarháskóla Íslands hafi verið kynnt háskólaráði og leitað umsagnar þess?