143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

aðstoð við sýrlenska flóttamenn.

318. mál
[15:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar bara til að koma hérna upp og taka heils hugar undir þessa tillögu frá þingflokki Vinstri grænna og tel þetta mjög þarft skref í að reyna að hjálpa því vesalings fólki sem býr í Sýrlandi. Nákvæmlega eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þá eigum við að reyna að beita okkur af öllum mætti í alþjóðasamstarfi í svona málum.

Ég kem líka hérna upp vegna þess að ég velti því oft fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á því að alþjóðasamfélagið hefur ekki gripið inn í málefni Sýrlands fyrr og stoppað þann hrylling, vægast sagt hrylling, sem á sér stað þar. Bara núna um helgina sá ég mynd í blaði þar sem sat fullorðinn maður með þrjú lítil börn eftir loftárásir í borg í Sýrlandi. Ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum getur heimurinn, Sameinuðu þjóðirnar, NATO og öll þessi friðar- og hernaðarbandalög, ekki gripið inn í og reynt að beita sér fyrir lausn í þessum málum. Það vafðist t.d. ekkert fyrir Bandaríkjamönnum á sínum tíma að ráðast inn í Kúveit og önnur lönd sem eru kannski frekar olíulönd. Maður veltir því fyrir sér af hverju þeir grípa strax inn í þar en ekki þarna.

Ég skora á fólk að gúggla stríðið í Sýrlandi og skoða myndir sem koma upp þar. Það er með ólíkindum hvað er að gerast í því landi.

Þess vegna fagna ég þessari tillögu og við eigum að beita okkur af fullum krafti á alþjóðavettvangi og þrýsta á samtök og bandalög og hernaðarbandalög eins og t.d. NATO að beita sér fyrir lausn þessara mála. Það er náttúrlega spurning með loftárásir, guð minn almáttugur, maður veit ekki hvað slíkt hefur í för með sér og á hverjum það bitnar. En þetta er eitthvað sem ég sem friðarsinni hér á Íslandi velti fyrir mér á hverjum einasta degi þegar maður sér myndir í fréttum frá landinu. Eins og kom svo vel fram í máli hv. þingmanns áðan bitnar þetta mest á börnum og gamalmennum. Það er í raun þyngra en tárum taki að tala um þetta.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og mun styðja hana heils hugar og vona að hún fái gott brautargengi í nefndinni og komi fljótt til afgreiðslu hér.