143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér menningarsamningana og skiptireglu og skiptingu fjármagns til menningarsamninga á landsbyggðinni. Í janúar sl. kynnti mennta- og menningarmálaráðuneytið landshlutasamtökunum hvernig skipting fjármagns yrði, að árið 2013 yrði lagt til grundvallar og á það yrði sett 10% hagræðing. Í desember sl. voru kynnt drög að nýrri reiknireglu fyrir fulltrúum landshlutasamtakanna og þar var lagt upp með gegnsæja reiknireglu svo að það liggi ljóst fyrir hvaða forsendur liggi að baki skiptingunni.

Landshlutasamtökin eru orðin mjög óþolinmóð með að fá ekki niðurstöðu í þetta mál. Það styttist í að menningarráðin þurfi að auglýsa eftir umsóknum svo það er nauðsynlegt að vita hvaða fjármagn þau hafa til ráðstöfunar. Það er því óásættanlegt að ráðuneyti séu að kasta þessari heitu kartöflu á milli sín þó að stærsta málið sé auðvitað hve lítið fjármagn er ætlað í menningarsamningana sem hafa skilað virkilega miklum árangri vítt og breitt um landið.

Það verður að koma niðurstaða í þessi mál. Ég ætla að vitna hér, með leyfi forseta, í samþykkt stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi:

„Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi gagnrýnir harðlega þá óréttlátu skiptingu fjármagns milli landshluta til menningarmála sem eina ferðina enn hefur verið skellt framan í andlit landshlutanna sjö. Krafist er gegnsærrar reiknireglu svo sjáist hvaða forsendur liggja að baki skiptingunni.“

Ég tek undir þetta, það verða að liggja fyrir skýrar og gegnsæjar reglur um hvernig þessu fjármagni, sem er allt of lítið, skiptist á milli landshlutasamtakanna.