143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrir viku birti Seðlabanki Íslands niðurstöðu um stýrivexti sem eru enn óbreyttir. Þar segir svo, með leyfi forseta, í tilkynningu bankans, „að verðbólguhorfur til næstu tveggja ára hafi hins vegar versnað frá nóvemberspá bankans þar sem horfur séu á að slaki í þjóðarbúskapnum snúist í spennu á tímabilinu“. Og síðar:

„Að því marki sem verðbólgan hjaðnar frekar mun taumhald peningastefnunnar herðast án frekari vaxtabreytinga. Samkvæmt verðbólguspá bankans munu nafnvextir hans þó að óbreyttu þurfa að hækka þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu.“

Í nýlegri grein á Eyjunni segir Friðrik Jónsson hagfræðingur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðustu tveimur árum hefur verðbólgan lækkað um meira en helming, úr 6,5% í 3,1%. Á fyrri hluta þessa tímabils hækkuðu dagvextir Seðlabankans úr 5,75% í 7,0% og hafa haldist óbreyttir síðan. Lækkun verðbólgu gefur ekki tilefni til lækkunar vaxta. Lækkun skulda gefur ekki tilefni til hækkunar vaxta. Lækkun gengis krónunnar gefur ekki tilefni til lækkunar vaxta, og ekki heldur hækkun gengis hennar. Minni hagvöxtur gefur ekki tilefni til lækkunar vaxta, og ekki aukinn hagvöxtur heldur.“

Út af fyrir sig væri fróðlegt og nauðsynlegt að Seðlabankinn svaraði því hvaða kringumstæður þyrfti til til að dagvextir og stýrivextir lækkuðu.

Svo vill til að rúmur helmingur launþega á vinnumarkaði skrifaði undir hóflega kjarasamninga um daginn og samþykkti þá. Margir hafa haldið aftur af launahækkunum og verðhækkunum þó að þar sé margt óunnið. Það virðast mjög margir í þjóðfélaginu, nánast allir, hafa trú á því að hægt sé að lækka hér stýrivexti og hægt að nálgast verðbólgumarkmið Seðlabankans nema eitt apparat, Seðlabanki Íslands sjálfur.

Það þarf með einhverju móti að fá Seðlabankann af þessu hvernig sem það verður gert.