143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara aðeins út fyrir nærumhverfið og gera að umtalsefni þær hörmungar sem nú ríða yfir úkraínsku þjóðina. Við ræddum hér mikið um ferð hæstv. menntamálaráðherra á Ólympíuleikana í Rússlandi vegna þess að þar voru lög sett um samkynhneigða sem og um þá sem vildu ræða trúmál með einum eða öðrum hætti.

Okkur hefur orðið tíðrætt um það. Við höfum ekki rætt þær hörmungar sem nú ríða yfir úkraínsku þjóðina. Aðeins í gær féllu um 18–20 manns. Forustumenn stjórnarandstöðunnar í Úkraínu hvetja konur og börn til að víkja af vettvangi, fara af Frelsistorginu til að forðast árásir lögreglu og skriðdreka og þeirra sem ráða ríkjum.

Ég vil beina þeim tilmælum til hv. utanríkismálanefndar að hún skoði þetta mál. Við erum í stjórnmálasambandi við Úkraínu og ég held að það hljóti að vera hlutverk okkar sem lýðræðisþjóðar að velta fyrir okkur því ástandi sem þar ríkir sem og í öðrum löndum sem við erum í stjórnmálasambandi við. Þar sem við teljum okkur friðelskandi vinaþjóð legg ég til og óska eftir því að hv. utanríkismálanefnd skoði þetta mál.

Þetta er hörmulegt. Ég er ekki að leggja dóm á hvort og hvor skoðun andófsmanna eða stjórnvalda sé rétt. Hins vegar þegar slær í brýnu á þennan hátt hljóta aðrar þjóðir að vilja skipta sér af. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)