143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um málefni Úkraínu, ég veit til þess að starfsbræður okkar í Svíþjóð eru að huga að því að álykta um þau efni og full ástæða fyrir okkur á Alþingi að huga að því einnig. Það er einfaldlega verið að drepa saklaust fólk í einni af höfuðborgum Evrópu og sjálfsagt að við látum í okkur heyra þar um.

En ég kvaddi mér hér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að lýsa sérstakri ánægju með einmitt störf þingsins og þá ekki síst störf umhverfis- og samgöngunefndar. Starfið í umhverfis- og samgöngunefnd á undanförnum vikum hefur verið til hreinnar fyrirmyndar fyrir okkur hin sem störfum í þinginu því að þar hefur tekist þverpólitísk samstaða um að hverfa frá þeirri vondu hugmynd, sem kom fram í frumvarpi umhverfisráðherra, að afturkalla náttúruverndarlögin, sem sett voru með starfi margra aðila á árinu 2013, og setja málið í málefnalegan farveg þar sem byggt verður á þeim lögum sem sett voru og þróun þeirra. Það sýnir innan umhverfis- og samgöngunefndar gagnkvæma virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og sjálfstæði þingsins í meðförum stjórnarfrumvarpa. Ég vil hrósa sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir málsmeðferðina alla og lýsa ánægju með að ráðherrann skuli ekki leggjast gegn því að málinu sé umturnað svo gjörsamlega í nefndinni.

Þetta held ég að sé ágætisdæmi fyrir okkur í öðrum nefndum þingsins um það hvernig þingnefnd getur tekið sjálfstætt á stjórnarmálefnum, rætt þau af skynsemi og komist að þverpólitískri niðurstöðu sem allir geta átt aðild að um sem besta málefnalega niðurstöðu í meðhöndlun máls.