143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram á jákvæðu nótunum. Greiningardeild Arion banka var með morgunfund í dag þar sem fjallað var um horfur í efnahagslífinu. Aðalefni fundarins var ný hagspá greiningardeildarinnar undir yfirskriftinni „Komin upp úr hjólförunum“. Í þessari tilteknu spá er gert ráð fyrir tiltölulega kröftugum hagvexti á komandi árum. Þarna var fjallað um peningamál hagkerfisins, gengi krónunnar og afnám hafta auk þess sem bankinn kynnti nýja greiningu á eftirspurn og framboði fjárfestingarkosta í hagkerfinu.

Það vekur auðvitað athygli að menn eru jákvæðir, greiningardeildir bankanna eru jákvæðar. Rétt er að það komi fram að yfirskrift þessa sama fundar eða ráðstefnu í fyrra var „Föst í fyrsta gír“. Við erum hætt að vera í fyrsta gír og komin upp úr hjólförunum þannig að við erum á réttri leið. Auðvitað er þetta ekki allt einhverjum einum að þakka heldur er þetta sameiginlegt verkefni okkar allra sem störfum hér og eins atvinnulífsins og allra sem starfa í landinu en það er rétt að vekja athygli á því að hér er um jákvæðar horfur að ræða. Við eigum að vera glöð og kát með það. Vonandi heldur þetta allt og við náum betri tökum á hagstjórn ríkisins, hagstjórn þjóðarinnar þannig að við höfum það öll miklu betra og náum að auka lífskjör fólksins í landinu.