143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni þá alvarlegu stöðu sem uppi er, hversu mörg umferðarslys verða í þessu samfélagi.

Á árunum 2005–2009, á fimm ára tímabili, urðu 7 þús. einstaklingar fyrir líkamlegum áhrifum vegna umferðarslysa, þ.e. sem létust, slösuðust alvarlega eða voru lítið slasaðir.

Ef við tökum árið 2008 fyrir sem dæmi fórust 12 í umferðinni, 200 eru alvarlega slasaðir. Það er sjaldnar rætt um þetta en það er alvarlegt hversu margir þetta eru. 1.373 eru lítið slasaðir, samtals 1.585 það árið.

Á sama tíma urðu 15.600 manns fyrir áfalli, þ.e. aðstandendur þessara einstaklinga, þannig að þetta er virkilega stórt verkefni sem við þurfum að takast á við til að minnka þetta. Það getum við gert með því að hafa fimm stjörnu vegi, fimm stjörnu hegðun og fimm stjörnu ökutæki. Nú eru flest ökutæki á markaðnum orðin fimm stjörnu og það er okkar, stjórnmálamannanna, að gera samgöngukerfið fimm stjörnu. Ákvarðanir okkar geta skipt miklu máli, hvaða ákvarðanir við tökum hér til að stemma stigu við þessu.

Útreikningar sýna að þetta eru um 36 milljarðar í peningum fyrir utan samfélagslega þáttinn sem slysin kosta. Það verður að hafa í huga þegar við ákveðum nýframkvæmdir og endurbætur. Við þurfum að drífa okkur í að aðskilja akstursstefnur, laga gatnamót og huga að því hvar umhverfisverndarsjónarmiðin ráða, hvar umferðaröryggissjónarmiðin fá að ráða, en það er þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í þetta. Þess vegna verðum við að fara að drífa okkur í framkvæmdir eins og Suðurlandsveginn, Vesturlandsveginn og mörg umferðarmannvirki eins og mislæg gatnamót hér á höfuðborgarsvæðinu.