143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Neysla fíkniefna er alvarlegt vandamál og snertir ekki aðeins vímuefnaneytandann sjálfan heldur einnig nánustu aðstandendur hans og samfélagið allt. Hertar refsingar, aukin löggæsla og að lokum stærri fangelsi leysa þar engan vanda. Að fylla fangelsi landsins af fólki, sem í ofanálag er oft fársjúkt vegna kvilla sem upp koma í kjölfar fíkniefnaneyslu, í þeim tilgangi að refsa því, er ekki leið sem ég tel líklega til að ná tökum á vandanum.

Það er hárrétt hjá hefjanda þessarar umræðu, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, að andspænis þessum flókna og erfiða málaflokki hafa viðbrögð einkennst um of af refsigleði sem rannsóknir sýna þó að skilar ekki tilætluðum árangri. Ef raunverulegur árangur á að nást í baráttunni gegn fíkniefnum þarf margháttaðar aðgerðir. Markmiðið hlýtur að vera að stemma stigu við því að nýir einstaklingar ánetjist efnunum, að bæta lífskjör og lífsskilyrði þeirra sem þegar eru háðir þeim og aðstoða fólk við að losna undan fíkninni. Þessu fólki á ekki að refsa.

Það má vel hugsa sér, í ljósi þess mikla kostnaðar sem samfélagið hefur af rekstri fangelsa, að með því að hætta að refsa sjúku fólki megi losa umtalsverða fjármuni sem mun betur væri varið í að aðstoða og byggja fólk upp, í stað þess að rífa það niður með refsingum.