143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Árið 2010 var ég viðstaddur kistulagningu 16 ára stúlku, dóttur vinar míns, sem lét lífið eftir áralanga baráttu við fíkniefni. Það er eitt það sárasta sem ég hef upplifað að horfa á fjölskyldu kveðja barn sitt með þeim hætti, en því miður er þetta ekki einsdæmi og er ítrekað að koma fyrir.

Við þurfum að setja raunverulegt fjármagn í þennan málaflokk. Við vorum hér á síðasta kjörtímabili að fjalla um viðbótarfjárveitingar til SÁÁ, þar sem ég hef líka starfað sem stjórnarmaður, upp á 10–20 milljónir, til að geta mætt vanda aldraðra alkóhólista. Okkur vantar fjármagn í langtímameðferðir fyrir unglinga, í langtímameðferðir fyrir langt leidda drykkjusjúklinga sem eru á götunni, okkur vantar heildstæða stefnu í vímuefnamálum.

Ríkið innheimtir áfengisgjald á hverju ári og það er samfélagi okkar til skammar hve lágt hlutfall af þeim fjármunum fer í þennan málaflokk, hvort sem horft er til forvarna, meðferðarúrræða eða löggæslumála. Það er fráleitt að við skulum setja burðardýr, oft á tíðum mjög ungt fólk, í fangelsi í fleiri ár í stað þess að bjóða þeim upp á langtímameðferð og nota til dæmis þvagprufur og önnur úrræði til að fylgjast með bata þeirra. Við verðum að bæta þessi mál og gera þetta betur en við erum að gera.