143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er mjög þakklát fyrir það hve langt við erum komin. Ég er þakklát fyrir að við þorum að tala um þetta mál af heiðarleika og einurð. Það er svo sannarlega kominn tími til að við hverfum af braut refsistefnunnar og hættum að refsa veiku fólki.

Við Píratar ætlum að leggja fram stefnu í fyrramálið um þessi málefni þar sem þau verða skoðuð heildrænt. Ég fagna því sérstaklega að á þessari þingsályktunartillögu eru þingmenn úr öllum flokkum. Mér finnst mjög mikilsvert að við ræðum um þetta hér á þinginu og finnum sameiginlegar lausnir sem eru viðunandi.

Ég hef kynnt mér mjög vel aðstæður ungra fíkla en ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna í Götusmiðjunni. Ég sá einmitt að ein stelpan sem við vorum að hjálpa þar hefur náð mjög góðum árangri. Hún sagði í nýlegu viðtali í Fréttablaðinu: „Við verðum að fá betri úrræði fyrir unga fólkið. Ég hefði getað dáið.“

Það er mikið spunnið í þá stelpu sem og marga sem leiðast inn á þessar brautir. Þeir sem gleymast, og við tölum svo sjaldan um, eru fjölskyldur fíkla. Það fólk fær nánast enga aðstoð. Í því ferli sem við erum að fara í hér á þinginu, vonandi í góðri sátt, verðum við að finna heildstæða stefnu í málefnum þeirra sem eiga við vandamál sem falla undir fíkn að stríða. Og gleymum því ekki að það eru ekki bara hörð eiturlyf sem flokkast þarna undir, amfetamín eða eitthvað slíkt, áfengi telst líka til harðra eiturlyfja og við verðum að horfa á þetta heildrænt.

Þess vegna er ég sérstaklega ánægð með þessa umræðu. Ég vona að við berum gæfu til að leggja fram góða lausn sem sátt verður um í samfélagi okkar.