143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:09]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þarfa umræðu um stefnumótun í vímuefnamálum sem er annað en lögleiðing fíkniefna sem ég heyri að sumir þingmenn eru svolítið að tala um hér líka.

Ég ætla að ræða um stefnumótun í vímuefnamálum. Ég hef varið stórum hluta ævi minnar á meðferðarheimili fyrir unglinga, reyndar sem hluti af þeirri fjölskyldu sem átti og rak það heimili. Ég hef því mikinn áhuga á málefnum barna og unglinga í þessu sambandi. Þegar við mótum okkur stefnu í vímuefnamálum þurfum við að mínu viti helst að huga að börnum og unglingum, setja það niður hvernig við náum að aðstoða þau og ekki síður foreldra þeirra til að leiða börn sín og unglinga til vega án vímuefna. Við erum væntanlega sammála um að vímuefni séu skaðleg og helsta markmiðið sé að fá sem flest fólk til að velja að sleppa þeim. Til þess þarf að hafa virkar forvarnir og þær kosta eitthvað en við vitum öll að þær skila okkur margfalt til baka.

En annað mál er með þá sem komnir eru í vanda. Þar verður að mínu viti að koma til öðruvísi nálgun en við beitum í dag. Refsingar vegna neyslu duga skammt og rannsóknir í sálfræði hafa fyrir löngu leitt í ljós að jákvæð styrking eða hvatning virkar mun betur en neikvæð styrking, þ.e. refsing. Í því sambandi þurfum við líka að tala meira um hugtakið skaðaminnkun.

Tíminn er að verða búinn en ég vona að þetta sé einungis byrjunin á lengri umræðu því að þörfin er svo sannarlega mikil.