143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu undirstrika það, sem hv. málshefjandi nefndi einnig í sínu máli, að hér er ekki verið að ræða neitt annað en um mögulegt refsileysi við neyslu fíkniefna og hvernig hjálpa eigi því fólki sem lendir í baráttu við fíkn. Ég er ekki að tala fyrir því að lögleiða fíkniefni, það er ekki hluti af þessari umræðu. Umræðan á ekki að snúast um það hér.

Ég vil geta þess að í desember undirritaði ég stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum sem átti sér töluverðan aðdraganda. Í þeirri stefnu er kveðið á um að ég muni setja af stað vinnu við aðgerðaáætlun sem eigi að taka til næstu tveggja til þriggja ára. Ég held að óhætt sé að fullyrða, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur orðið, að sú vinna verði hafin. Ég mun hefja þá vinnu innan skamms. Sú aðgerðaáætlun sem ég hyggst þar setja af stað mun taka til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni í kjölfar slíkrar meðferðar, endurhæfingar en að auki þarf nauðsynlega að endurskoða lagaramma þessara mála, heilsugæsluna, félagsþjónustu, menntakerfi, löggæslu o.s.frv.

Ég vil einnig undirstrika að þessu verki þarf að gefa góðan tíma. Sambærileg umræða er á Norðurlöndunum. Það ber að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Svíar tóku sér til dæmis tvö ár til að móta stefnu í þessum málum.

Engu að síður vil ég í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana og málshefjanda sérstaklega. Ég er sannfærður um að á þessum grunni munum við geta hnikað þessu eitthvað til með það sameiginlega markmið að bæta úr ástandi sem við flest viljum hafa öðruvísi en það endurspeglast í dag.