143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki laust við það að einhver spenna hafi verið í loftinu undanfarna daga í tengslum við þá skýrslu sem boðað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnin yrði um Evrópusambandið og það aðildarferli sem fyrri ríkisstjórn efndi til. Nú er hún komin og þar með liggur fyrir fræðilegt mat óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Fagna ég því að umræða geti nú farið fram um þessa skýrslu, ekki síst hér á Alþingi. Vona ég að skýrslan muni einnig skapa grundvöll fyrir opinni og hreinskiptinni umræðu í þjóðfélaginu um þetta stóra mál sem svo mjög hefur verið skipst á skoðunum um í þessum þingsal undanfarin ár.

Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að það sé spenna í loftinu. ESB-málið er mál sem klofið hefur flokka, klauf síðustu ríkisstjórn og hefur síðast en ekki síst rekið fleyg í þjóðmálaumræðu í þessu landi á sama tíma og önnur ærin viðfangsefni hafa setið á hakanum. Er afar miður að svo hafi farið. Það er fullljóst að það ferli sem hafið var sumarið 2009 var ekki til þess fallið að stuðla að sátt í samfélagi sem var í sárum. Kveikt var á villuljósi. Við það ljós eltust menn um lendur og strendur og hefur dýrmætum tíma velmeinandi fólks verið varið í þá vegferð alla.

Ég vonast til þess í dag að umræðan muni meira og minna beinast að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og reyndar öllum öðrum ef við mögulega getum. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það.

Aðild að Evrópusambandinu var á sínum tíma á stefnuskrá annars þáverandi stjórnarflokka og um meðferð þess var síðan samið í stjórnarsáttmála þeirra tveggja flokka sem settust í ríkisstjórn á vormánuðum 2009 og báru síðan málið uppi. Um þá vegferð og þær forsendur sem gefnar voru má glögglega lesa í bók fyrirrennara míns í starfi, en hugtakið „pólitísk hrossakaup“ kemur iðulega upp í því sambandi. Um það mátti lesa í jólabókaflóðinu.

Það var pólitísk ákvörðun stjórnarflokkanna á sínum tíma og fyrir því verður að bera virðingu. Með sama hætti er ég viss um að þessir sömu flokkar bera virðingu fyrir því að núverandi stjórnarflokkar eru trúir yfirlýstri stefnu beggja flokka, sem og ríkisstjórnarinnar, um stöðu Íslands utan Evrópusambandsins. Ég vil taka fram að ég tel að faglega hafi verið staðið að ferlinu innan stjórnsýslunnar þótt við fyrirrennari minn höfum aldrei verið sammála um að leggja í þennan leiðangur.

Nú höfum við skýrsluna fyrir framan okkur og enn stærri gagnabunka að fara í gegnum ef taldir eru viðaukar skýrslunnar sem birtir hafa verið á vef utanríkisráðuneytisins þar sem kafað er dýpra í einstaka þætti. Þess ber að geta að nú, rúmum fjórum árum eftir að í leiðangurinn var lagt, getum við í fyrsta sinn lesið heildstæða og óhlutdræga úttekt á Evrópusambandinu og því hvernig, og hvort, hagsmunir Íslands eru yfir höfuð samrýmanlegir ESB. Að mínu mati skýtur það skökku við að það sé fyrst nú, á þorranum á því herrans ári 2014, sem slík úttekt liggur fyrir.

Þetta er gríðarlega umfangsmikið verk. Og þetta er vandasamt verk. Það er sérstök ástæða til að þakka Hagfræðistofnun fyrir vel unnin störf.

Það eru nokkur meginatriði sem ég tel rétt að vekja athygli á í þessari skýrslu sem að mínu mati standa upp úr varðandi aðildarferlið og mat á því.

Skýrslan leiðir vel í ljós þá galla sem eru á því ferli sem viðhaft er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið sem er við stjórnvölinn. Þannig er það. Sambandið stýrir ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla.

Eftir áratugareynslu og ríkan árangur við stækkun er þetta sú leið sem ESB hefur valið til að beita umsóknarríki þrýstingi til að taka upp löggjöf sambandsins meðan viðræður standa enn yfir. Aðildarviðræður voru, eru og munu verða aðlögun á forsendum Evrópusambandsins.

Þegar rýnt er í mál sést ferli sem er drifið áfram af embættismönnum sem hafa það meginverkefni að ganga úr skugga um að formlegum skilyrðum Evrópusambandsins hafi verið fylgt í einu og öllu í formi innleiðingar á regluverki ESB og uppsetningu stofnana samkvæmt því.

Á hið lýðræðislega umboð hallar stórlega og hér er hvergi rúm fyrir pólitíska sýn. Hvar er hin fagra sýn um sameinaða Evrópu? Hefur henni verið sökkt í formlegheitum ferla og skýrslna sem á endanum verða svo þung í vöfum að allir hafa misst sjónar á því sem máli skiptir? Byrgir ferlið sjálft mönnum sýn?

Fyrir Ísland og hagsmuni íslenskrar þjóðar er hér um lykilatriði að ræða. Þetta er ekki sama ferlið og þau ríki gengu í gegnum sem búa við sambærilega stöðu og við. Vísa ég þá til EFTA-ríkjanna og þeirra ríkja sem gengu inn í Evrópusambandið, t.d. í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.

Aðildarferli ESB eins og það er nú miðast við ríki sem eru að nota aðildina til að umbreyta hagkerfi og lagakerfi sínu. Fyrir mörg þessara ríkja eru viðmiðin og uppfyllt skilyrði árangur í sjálfu sér — mikilvægar vörður á leið þessara ríkja á leið sinni til vestræns markaðssamfélags. Ferlið sem er viðhaft getur hins vegar trauðla tekið tillit til sérstakra aðstæðna í einstökum ríkjum, hvað þá ríkjum eins og Íslandi sem státar af mörgu af því besta sem fyrirfinnst í álfunni hvort sem litið er til hagstærða, samfélagsgerðar og stjórnkerfis.

Að fenginni reynslu er ekki verið að ljóstra upp neinu óvæntu þegar sagt er að aðildarferli ESB, í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, sé alls ekki hugsað fyrir ríki sem Ísland. Sveigjanleikinn er ekki til staðar. ESB er í raun ekki í stakk búið til að taka á móti velmegandi ríki eins og Íslandi og eiga samninga um aðild á jafnræðisgrundvelli.

Þetta má ekki skilja svo að þarna búi illur vilji að baki, alls ekki. Þarna birtist eingöngu stækkunarstefna Evrópusambandsins sem afsprengi nýliðinnar sögu en á sama tíma hefur ESB misst ákveðinn sveigjanleika og í raun sterka tilfinningu fyrir því sem máli skiptir eins og það hafði áður.

Þetta kom hvað gleggst fram í þeim samningaköflum sem skiptu Ísland hvað mestu máli og ég vík að á eftir.

En það er annar stór galli á þessu ferli. Það er sú staðreynd að öll þessi skilyrðasetning fyrir framgangi viðræðna í formi viðmiða gefur einstökum aðildarríkjum enn ríkari tækifæri en fyrr til að láta sérhagsmuni sína ráða för. Þannig geta algerlega óskyld mál verið spyrt saman við bæði ferlið sjálft og framgang umsóknarríkja og þannig geta þeir sem fyrir liggja á fleti tekið varðstöðu um þrönga hagsmuni sína. Slíkt dregur auðvitað úr trúverðugleika ferlisins og trúverðugleika ESB almennt.

Ísland fór nefnilega ekki varhluta af þessu tvíeðli stækkunarferlis Evrópusambandsins og er það rakið ágætlega í skýrslu Hagfræðistofnunar. Við þekkjum þetta varðandi Icesave þar sem engum dylst hugur um að allt frá upphafi hafi sú deila verið tengd aðildarviðræðum af þeim tveimur ESB-ríkjum sem áttu í hlut. Í raun tók Evrópusambandið í heild þátt með samþykkt ýmissa ályktana þar sem vísað var til deilunnar jafnvel á hálfgerðu dulmáli sem þó fór ekki á milli mála hvað þýddi.

Króatar þekkja þetta á eigin skinni og nú til dæmis Serbía án þess að með því sé lagður dómur á hátterni Serba á neinn hátt. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum að þau mistök sem Evrópusambandið gerði í málefnum Úkraínu eru af sama meiði, ESB sér ekki skóginn fyrir trjánum. Stækkunarstefnu sambandsins skortir metnaðarfulla pólitíska sýn.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Hagfræðistofnunar er dregin upp mynd af ESB sem framfylgir stækkunarstefnu sem er föst á klafa viðmiða og skilyrða og gefur núverandi aðildarríkjum tæki til eigin hagsmunagæslu. Stækkunarstefnan er í eðli sínu óbilgjörn. Hún er ekki framkvæmd á jafningjagrundvelli. Þessi stækkunarstefna hentar ekki Íslandi. Það var ábyrgðarhluti að hrinda í framkvæmd aðildarviðræðum þegar þannig háttar til.

Að þessum forsendum gefnum er það að mínu mati fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum. Málið er ekki flókið. Það kemur skýrt fram í skýrslu Hagfræðistofnunar að ekki var um hefðbundnar samningaviðræður að ræða. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Það sem um var rætt var aðild annars á forsendum hins. Þá kemur að sama skapi skýrt fram í skýrslunni að varanlegar undanþágur voru trauðla í boði. Bara þessi tvö atriði, engar varanlegar undanþágur og það að ekki var um hefðbundnar samningaviðræður að ræða, sýna að grundvöllurinn sem lagður var fram til að hefja þessa vegferð var varla til staðar.

Vegferðin var vanbúin frá upphafi, pólitíska og samfélagslega samstöðu skorti. Hlaupið var til í hræðsluleiðangri að Evrópusambandinu sem bjargvætti þegar skipið hóf að sökkva í stað þess að kveikja sjálf á dælunum og hefja viðgerðir í samstilltu átaki þjóðar.

Evrópusambandið var ekki og er ekki sá bjargvættur sem við þurftum.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar er bent á þá staðreynd að ESB og nokkur aðildarríki þess hafi einmitt notað ferlið til að koma í veg fyrir að viðræður gætu yfir höfuð hafist um okkar mikilvægasta hagsmunamál, sjávarútveginn.

Ekki verður annað ráðið en að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og nokkur aðildarríki hafi tekið höndum saman um að nota aðildarferlið til að þvinga fram lausn á makríldeilunni sem væri þeim að skapi. Þurfa menn ekki annað en að lesa ágæta bók fyrirrennara míns til að sjá hve mikið pláss þessi tiltekna tvíhliða deila tók í öllu ferlinu.

Að vissu marki kemur þetta einnig fram í samningskafla um landbúnað þar sem opnunarviðmið voru sett sem olli verulegum töfum á því að við gætum látið reyna á grundvallarhagsmuni okkar.

Þar að auki gerir skýrslan vel grein fyrir því hve mjög svo takmarkað svigrúm það er sem ESB telur sig hafa til að víkja frá regluverki sínu þegar kemur að aðildarsamningum við ný ríki. Ég held að öllum sé ljóst að ef ná ætti aðildarsamningi fyrir Ísland sem ætti að eiga einhverja von um að verða samþykktur þyrfti Evrópusambandið bæði nánast að breyta sjávarútvegsstefnu sinni í öllum grundvallaratriðum sem og fallast á lausnir í landbúnaði sem gengju þvert á gildandi kerfi sambandsins.

Slíkt er vitanlega ekki raunsætt og í raun ábyrgðarhluti að halda því að fólki sem einhverjum raunhæfum valmöguleika. Mér sýnist skýrslan staðfesta þetta svart á hvítu.

Ef þessi atriði eru tekin saman vekur það afar áleitnar spurningar í mínum huga. Burt séð frá skoðun manns almennt á aðild Íslands að ESB má spyrja sig hvort sambandið hafi undanfarin 20 ár þróast með þeim hætti að það sé í raun orðið enn minna aðlaðandi fyrir ríki eins og Ísland en áður var. Mín skoðun er að minnsta kosti sú að ef nokkru sinni verður lagt af stað í þennan leiðangur á nýjan leik eigi að hefja vegferðina á því að ræða við Evrópusambandið um hvers konar ferli yrði viðhaft.

Sú grundvallarspurning sem hefði þurft að svara var hvort samstaða væri um ferlið. Værum við tilbúin í grundvallarbreytingar í átt að löggjöf ESB á sjávarútveginum okkar og landbúnaði? Ég tel líklegt að annar þáverandi stjórnarflokkurinn hefði ekki verið sammála þeim breytingum og núverandi stjórnarflokkar eru það heldur ekki. Slíkar breytingar hefðu þýtt afturför fyrir íslenska matvælaframleiðslu sem er rómuð fyrir hágæðavöru, sjálfbærar veiðar og góða framleiðslu. Glögglega kom fram í viðræðunum hversu ósamrýmanlegar stærðir það eru, landbúnaður í strjálbýlinu á Íslandi og landbúnaður í Evrópu þar sem hver hektari er nýttur. Þegar kemur að muninum á sjávarútvegi á Íslandi og sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er réttara að tala um eðlismun en stigsmun.

Kaflinn um sjávarútvegsmálin var skammt á veg kominn eins og við þekkjum og er ágætlega rakið í skýrslunni. Í þessu samhengi verðum við að halda okkur við staðreyndir og þekktar stærðir. Það eru stofnanir ESB sem ákveða leyfilegan heildarafla. Aðeins Evrópusambandið hefur vald til að vera í fyrirsvari og gera samninga við þriðju ríki um fiskveiðar. Reynslan af inngöngu annarra þjóða sýnir að erfiðlega hefur gengið að fá varanlegar undanþágur í þessum málaflokki. Tímabundnar undanþágur hafa verið fáar og verður eingöngu breytt á vettvangi ESB. Þetta er allt rakið afar vel í skýrslu Hagfræðistofnunar. Eftir stendur að ríki sem óska eftir aðild að ESB munu alltaf gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu og allar breytingar á henni til framtíðar verða eingöngu ákveðnar á vettvangi Evrópusambandsins, hvergi annars staðar.

Það hefur verið líkt og rauður þráður í gegnum rökstuðning fyrir aðildarumsókn og síðar aðild að það mundu gerast kraftaverk í íslenskum efnahagsmálum við það að ganga í ESB og síðar taka upp evru, svo ekki sé vitnað hér til þeirra sem sögðu að slík kraftaverk mundu fylgja umsókninni einni saman. Verðbólga átti að minnka, hagvöxtur aukast, fjárfestingar vaxa margfalt og verðtryggingin gufa upp.

Hér birtast villuljósin sem mér varð tíðrætt um í upphafi máls míns. Skýrsla Hagfræðistofnunar verður ekki lesin á annan veg en að allt þetta sé meira eða minna sýnd veiði og fráleitt gefin. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að Evrópusambandið er ekki eitt einsleitt efnahagssvæði sem er greypt í sama efnahagslega mótið, þvert á móti. ESB er margbrotið efnahagssvæði þar sem kraftar toga í mismunandi áttir á hverjum tíma. Meðan berjast þarf við þenslu í Þýskalandi þarf að koma efnahagsvélunum af stað í Grikklandi. Það kemur einnig í ljós að vextir eru ekki þeir sömu frá einu ríki til annars, hvort sem um ræðir fólk og fyrirtæki, innláns- eða útlánsvexti. Verðbólga er mismikil í aðildarríkjunum, jafnvel innan evrusvæðisins, þrátt fyrir sameiginlegan markað og mynt. Þau lönd sem glímdu við háa verðbólgu fyrir inngöngu í ESB gerðu það áfram í einhvern tíma eftir inngöngu. Einnig er himinn og haf milli atvinnustigs í einstökum ríkjum. Ekki man ég til þess að þessum staðreyndum hafi verið haldið á lofti af síðustu ríkisstjórn.

Það er því ljóst að Evrópusambandið sem efnahagskerfi, einkum evrusvæðið, er að þroskast mjög hratt og á langan veg fyrir höndum þar til þeir gallar sem menn nú játa að séu á kerfinu verða leystir.

Mikið vatn á eftir að renna til sjávar innan Evrópusambandsins hvað efnahagsmálin varðar og alls ekki ljóst hvert evrusvæðið kann að stefna í frekari samruna sínum. Út af þeirri forsendu er óábyrgt að ræða efnahagsmál í Evrópu og hugsanlega stöðu Íslands í því samhengi.

Svo því sé haldið til haga vildi svo til að á því tímabili sem aðildarviðræður Íslands við ESB stóðu sem hæst áttu sér stað einhverjir mestu umbrotatímar í efnahagslífi Evrópu. Það var ekkert endilega vel fyrirséð frekar en önnur mannanna verk. Hins vegar var það ábyrgðarhluti að halda þessari vegferð áfram á meðan bersýnilegt var að hin ætluðu kraftaverk mundu láta á sér standa.

Ég læt hér staðar numið um efnisatriði skýrslunnar. Það eru vissulega mörg önnur atriði sem væri hægt að drepa á en ég er viss um að mörg slík eiga eftir að koma upp í umræðunni í dag og á morgun og í samfélaginu á næstu dögum.

Virðulegi forseti. Hvaða ályktanir má þá draga af skýrslunni og ferlinu að öðru leyti?

Til viðbótar við það sem ég hef þegar nefnt varðandi aðildarferlið eins og ESB skipuleggur það og augljós áhrif þess á meginhagsmuni okkar hlýt ég að staldra við þann þátt sem að mínu mati var ávallt veikasti hlekkurinn í keðjunni. Sá hlekkur snýr að okkur sjálfum og ESB verður seint kennt um.

Það var og er skortur á samstöðu um ferlið, hvort heldur er í stjórnmálum eða meðal almennings. Það er í raun reyfarakennt að hugsa til þess að efnt var til vegferðar um eitthvert umdeildasta mál þessarar þjóðar og hún sveipt málamiðlunum og óljósum fyrirheitum um eitthvað sem kynni að vera handan við hornið. Nærtækast væri að tala um pólitískt tómarúm í þessu samhengi. En því má ekki gleyma að þessi vegferð kostaði tíma og fjármuni á tímum þegar þrengdi að í íslensku þjóðarbúi.

Það sem skorti á vorið og sumarið 2009 var að ríkisstjórnarflokkarnir þáverandi einbeittu sér að því að mynda samstöðu um hvort og þá hvernig skyldi tekist á við þetta mál hvort heldur var á Alþingi eða í þjóðfélaginu. Gleymum því ekki að þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn lögðu fram aðra leið í þessu máli en henni var hafnað af því að það lá svo mikið á að hlaupa í viðræður við ESB. Asinn var alger. Bjargvætturinn átti að vera Evrópusambandið, ekki við sjálf og okkar eigin geta.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að sagan segir okkur að lykilatriðið í aðildarviðræðum við ESB sé sterk samstaða meðal þjóðar og meðal stjórnmálamanna og milli stjórnmálamanna og þjóðar. Á alla þessa þætti skorti.

Virðulegi forseti. Ég hygg að við fögnum því öll að þessi skýrsla er nú komin fram. Ég er sannfærður um að að gefnum þeim forsendum sem blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar sé óábyrgt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Þetta met ég með hliðsjón af þremur meginþáttum sem í skýrslunni eru dregnir fram og ég hef tæpt á.

Í fyrsta lagi er á vegum ESB rekin óbilgjörn stækkunarstefna sem í besta falli er ósanngjörn fyrir ríki eins og Ísland en í versta falli úlfur í sauðargæru, eins og berlega hefur komið í ljós, bæði í Icesave og makríl. Í annan stað er himinn og haf á milli sýndar og veruleika þegar kemur að kjarnahagsmunum okkar Íslendinga í sjó og á landi. Einhver samningsniðurstaða milli ESB og Íslands í þessum málaflokkum er flöktandi villuljós. Er þessi sannfæring borin á þungum lagalegum rökum. Í þriðja lagi sýnir þróunin í efnahagsmálum Evrópu síðustu árin að allt of snemmt er að ætla að þeim stöðugleika hafi verið náð sem svo margir hér á landi hafa talið að væri eftir að slægjast.

Við þurfum að taka í sameiningu á þeim atriðum sem snúa að okkur sjálfum en ekki úthýsa málinu til ESB til lausnar. Við erum að gera það nú þegar. Í níu mánuði hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs unnið í og tekið á stærri vandamálunum sem liggja fyrir þjóðinni, skuldaleiðréttingu, fjármálum ríkissjóðs, eflingu heilbrigðisstofnana og löggæslu svo eitthvað sé nefnt.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægast nú að umræða fari fram um þessa skýrslu, þingmenn og aðrir gefi sér tíma til að fara í gegnum það efni sem hér er komið fram. Margt af því er alveg nýtt efni um mikilvæg mál eins og aðildarferlið sjálft, Lissabonsáttmálann og efnahagsmál og Evrópusambandið sjálft svo dæmi séu nefnd.