143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir framsöguna og þakka fyrir skýrsluna, en vil þó lýsa því yfir að það er sérstök lífsreynsla að vera svona mikið ósammála einum manni á jafn skömmum tíma. Ég gæti spurt um svo ótalmargt í afstöðu hæstv. utanríkisráðherra til Evrópusambandsins. Ég ætla að reyna að takmarka mig við nokkrar spurningar.

Í fyrsta lagi finnst mér alveg full þörf á að fara yfir það grundvallaratriði að Evrópusambandið er ekki bara einhver klúbbur sem maður gengur í og þá verði allt gott. Evrópusambandið er samstarfsvettvangur fullvalda ríkja í Evrópu sem hafa kosið að reyna eftir besta megni að leysa vandamál sín saman. Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra var að fara yfir viss grundvallaratriði á sinn hátt í ræðunni finnst mér mikilvægt að hann íhugi þetta. Hvernig væri Evrópa útlítandi ef þessi samstarfsvettvangur eða að mörgu leyti þessi lýðræðislegi háþróaði samstarfsvettvangur væri ekki til staðar, ef við veltum því grundvallaratriði fyrir okkur?

Greina mátti þann þráð í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hér væri flest allt býsna gott og tiltók hann þar meðal annars matvæli. Ég get alveg fallist á það að íslenskt lambakjöt er mjög gott. En ég vil minna hæstv. ráðherra á það að við búum við fjármagnshöft og við erum með þannig gjaldmiðil að við verðum að hafa höft, annars mundi gjaldmiðillinn hrynja og lífskjör á Íslandi hrynja. Ég vil vekja athygli ráðherrans á því að Evrópusambandið sem samstarfsvettvangur ríkja gæti gagnast okkur í þeirri klemmu til að leysa það mál, svo ég nefni einn kost.

Mér finnst vera einn þráður í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar í málinu sem þurfi að ræða af talsverðri dýpt og ég býst við að við gerum það í dag. Því er haldið fram að ekkert sé um að semja. Þá vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Eru allir aðildarsamningar eins? (Forseti hringir.) Mundi nægja okkur, fyrst ekkert er um (Forseti hringir.) að semja, að þýða einfaldlega samninginn við Króatíu sem (Forseti hringir.) er sá síðasti sem Evrópusambandið gerði og bera hann upp (Forseti hringir.) til atkvæða á Íslandi?

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gæta að ræðutíma og einnig hæstv. utanríkisráðherra að nefna hæstv. forsætisráðherra fullu nafni ef hann vísar til hans í máli sínu.)