143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á yfirsjón minni að nefna hæstv. forsætisráðherra.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, virðulegi forseti, að Evrópusambandið er ekki einhver klúbbur, Evrópusambandið er ekki einhver svona, hvernig á að orða það pent, einhver íþróttaklúbbur eða eitthvað slíkt. Við erum nefnilega í ágætu samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig væri Evrópusambandið í dag ef ekki væri svona góð samvinna þar? Það er erfitt að spá um það. Væntanlega væri meiri ófriður þar, sammála því. Það er spurning hvort hrun hefði orðið á Grikklandi og Spáni. Ég er ekki viss um að þar hefði orðið hrun ef Evrópusambandið liti ekki út eins og það lítur út í dag.

Það er vont að hugsa til þess að Evrópusambandinu tókst ekki að koma í veg fyrir þau átök sem eiga sér stað núna í Úkraínu, sem er mjög sorglegt að séu í gangi. Menn segja jafnvel að Evrópusambandið hafi gert mistök þar með því að beita Úkraínu of miklum þrýstingi og kröfum.

Höft, eru ekki fjármagnshöft á Kýpur? Er Kýpur ekki í Evrópusambandinu?

Ekkert um að semja. Það kemur berlega í ljós í skýrslunni og staðfestir það sem margir hafa haldið fram og sagt að það er í sjálfu sér ekkert um að semja þegar kemur að lykilhagsmunum Íslands. Hægt er að fá tímabundnar undanþágur. Hægt er að fá aðlögunartíma til að taka upp ákveðnar reglur. Við sáum það ágætlega einmitt í samningi Króatíu sem hér var nefndur, að þar eru fyrst veitt sjö ár til að aðlaga landbúnaðinn í Króatíu að Evrópusambandinu, með mögulega framlengingu um þrjú ár.

Það er einhver undanþága til þriggja ára varðandi ákveðna stærð af skipum og einnig varðandi umhverfismál. Allt þetta fellur hins vegar út á endanum.

Ég held ég fari með rétt mál, ég ætla að hafa smá fyrirvara á því, að í kaflanum sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor skrifar komi fram að árið 2022 verði engar undanþágur lengur í gildi innan Evrópusambandsins, þá séu þær allar búnar, runnar út. En um hvað á að semja? Halda menn það virkilega að við, ein þjóða, fáum að stjórna okkar sjávarútvegi? (Forseti hringir.)