143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði út af fyrir sig ekki spurningunni hvort hægt væri að bera einfaldlega upp samning Króata á Íslandi, þýða hann og bera hann undir þjóðaratkvæði. Auðvitað er það ekki hægt. Samningur Króata við Evrópusambandið er uppfullur af ýmsum ákvæðum sem varðar Króatíu sérstaklega og þar eru sérákvæði, varanlegar sérlausnir, til dæmis varðandi dýraheilbrigðismál vegna landfræðilegra aðstæðna.

Er hæstv. utanríkisráðherra að gera lítið úr því að Danir hafa náð varanlegum undanþágum frá frjálsum fjármagnsflutningum, svo dæmi sé tekið, við kaup á fasteignum. Malta hefur líka náð því. Finnar hafa náð varanlegum undanþágum vegna landbúnaðarmála, Svíar og fleiri. Varanlegum sérlausnum, við köllum það sérlausnir svo hugtakið sé rétt notað, vegna harðbýlla svæða svo dæmi sé tekið. Danir njóta undanþágu, þeir eru í ERM II en eru ekki með evruna. Það er urmull af dæmum um að þjóðir njóta ýmissar sérstöðu sinnar í samskiptum sínum við Evrópusambandið og samið er á grundvelli þess.