143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að ég er hlynntur Evrópusambandinu. Ég held að það hafi náð tilgangi sínum, sem er sá að tryggja frið í Evrópu. Það var og er megintilgangur Evrópusambandsins. Ég er mjög hlynntur því. Þeim hefur tekist það.

Það sem gerðist hér á Íslandi var dálítið merkilegt. Einn flokkur, Samfylkingin, vildi ganga í Evrópusambandið. Aðrir flokkar vildu það ekki. Vinstri grænir vildu ekki ganga í Evrópusambandið. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann Vinstri grænna lýsa því yfir að hann hafi viljað að Ísland gengi í Evrópusambandið og ræður hv. þingmanna og ráðherra Vinstri grænna á sínum tíma eru sérstaklega til eftirlestrar og til þess að skoða. Þær eru mjög merkilegar.

Það var sem sagt minni hluti fyrir því að ganga í Evrópusambandið hér á þinginu. Það var líka minni hluti hjá þjóðinni þegar spurt var: Viltu að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, hluti af Evrópusambandinu? Það var aldrei spurt þannig. Nei, menn spurðu: Það er hægt að semja um ýmislegt, eigum við ekki að kíkja í pokann? Eigum við ekki að sjá hvað gerist? Við ætlum ekkert að ganga þarna inn. Nei, nei, nei. Þetta sögðu Vinstri grænir. Því miður.

Á síðu 32 í þessari skýrslu segir:

„Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild.“

Menn eru sem sagt ekki að sækja um nema þeir ætli að ganga inn.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Var vilji fyrir því á Alþingi á þessum tíma að Ísland gengi í Evrópusambandið?

Svo gerist það líka 2009, á sama ári og við sóttum um, að Lissabonsáttmálinn (Forseti hringir.) var samþykktur og þá breyttust allar forsendur.