143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins rifja upp sagnfræði þessa máls. Í alþingiskosningunum 2009 fengu meiri hluta á Alþingi Íslendinga flokkar sem höfðu á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu: Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Borgarahreyfingin. Atvik höguðu því síðan þannig (Gripið fram í.) — jú, að sækja um aðild — að Framsóknarflokkurinn sneri við blaðinu áður en kom að afgreiðslu þessa máls hér í þingsal.

Það var svo niðurstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að styðja aðildarumsókn. Mér finnst enginn bragur á því hvernig menn hér leyfa sér að tala aftur og aftur niður þá efnislegu afstöðu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð komst að á þessum tíma. Hún var byggð á landsfundarsamþykkt flokksins frá því í mars 2009 þar sem skýrt var tekið fram að flokkurinn væri tilbúinn að láta útkljá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu að undangenginni aðildarumsókn. Mér finnst það málefnaleg afstaða.

Síðan reyna menn að halda því fram að það sé einhver krafa að menn séu búnir að ákveða að ganga í Evrópusambandið áður en þjóðin sæki um aðild. Það hefur aldrei verið þannig. Fjöldamörg dæmi eru um að ágreiningur sé um það í ríkisstjórnum hvort menn vilji aðild að Evrópusambandinu, þeir láta engu að síður á samninga reyna.

Meiri hluti þjóðarinnar segir í könnunum í dag að hann vilji fá að sjá samning og greiða um hann atkvæði. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill fá efndir á kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir kosningar um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framhald málsins.

Ég hef ítrekað sagt við menn á vettvangi Evrópusambandsins að ég sé ekki búinn að ákveða að ég vilji aðild að Evrópusambandinu. Ef vondur aðildarsamningur liggur fyrir, auðvitað vil ég hann ekki. Þannig hugsa allir hugsandi menn í öllum löndum í Evrópu.