143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aftur varðandi það sem menn láta sér detta í huga að segja hér af býsna mikilli ósvífni í garð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Afstaða þess flokks, án þess að ég sé sérstakur talsmaður hans, í stjórnarmyndunarviðræðunum vorið 2009 byggðist á skýru umboði frá landsfundi flokksins. Það er ómerkilegt að halda öðru fram og það er hluti af leiðindaspuna sem núverandi stjórnarflokkar hafa haldið uppi undanfarin ár að halda öðru fram.

Varðandi afganginn af spurningu hv. þingmanns er bara ekkert hægt að þrasa lengur um þennan tjakk. Það verður að spyrja þá sem geta svarað spurningunum: Hvaða úrlausn er hægt að fá?

Það er ekkert athugavert við aðildarumsókn Íslands. Evrópusambandið vissi nákvæmlega hvernig hún var tilkomin, gerði engar athugasemdir við tilurð hennar hér á Alþingi, hefur engar athugasemdir gert við ríkisstjórn um tilurð hennar á einum eða neinum tímapunkti. Og það er ekkert athugavert við að ríkisstjórn sæki um og áskilji sér rétt (Forseti hringir.) til að standa ekki í heild eða að hluta (Forseti hringir.) að baki aðildarsamningi ef hann er ekki nógu (Forseti hringir.) góður. Það hafa margar ríkisstjórnir áður gert.