143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig sá hann fyrir sér, af því hann taldi sig vita að Evrópusambandið mundi bjóða okkur góðan díl varðandi sjávarútvegsmálin, að það mundi verða, undir hvaða formerkjum? Nú kemur fram í skýrslunni að það hefur aldrei gerst að veittar hafi verið varanlegar undanþágur til aðildarríkis á sviði sjávarútvegsmála eða landbúnaðar. Það hefur væntanlega ekki verið varanleg undanþága sem hv. þingmaður sá fyrir sér.

Síðan koma tímabundnar undanþágur fram í skýrslunni. Þær eru líka til. Var það það sem hv. þingmaður sá fyrir sér að mundi gerast vegna þess að tímabundnar undanþágur hafa verið veittar? Hér er tekið dæmi um Finnland, Svíþjóð, Austurríki og Noreg, að þau hafi fengið tímabundnar undanþágur sem áttu að gilda í um það bil fimm ár þar sem alvarlegir erfiðleikar steðjuðu að þessum ríkjum á þeim tíma. Þetta voru tímabundnar undanþágur. Var það það sem hv. þingmaður var tilbúinn að gera með sjávarútvegsmál hér á Íslandi, að veita fimm ára aðlögun? Evrópusambandið skilgreindi undanþágurnar sem aðlögun að hinu evrópska kerfi. Það kemur fram í skýrslunni. Þessar tímabundnu undanþágur hafa verið veittar til að auðvelda þjóðunum að fullu aðlögun að hinni sameiginlegu stefnu.

Þá er það þriðja spurningin. Gerði hv. þingmaður sér von um að ESB mundi breyta regluverki sínu fyrir Ísland? Er það það sem hv. þingmaður reiknaði með að mundi gerast? Ef það er svo erum við að tala um gríðarlega stóra breytingu og viðsnúning í rauninni af hálfu Evrópusambandsins þegar við lítum á hversu mikilvægur málaflokkur er á ferðinni. Það er dæmi um að ESB hafi hliðrað að litlu leyti til á þennan hátt varðandi Möltu, sem oft er vísað til, en það er gríðarlega mikill munur á þeim hagsmunum (Forseti hringir.) sem undir eru gagnvart þeirri ívilnun til handa Möltu (Forseti hringir.) og þess sem hv. þingmaður er hér að tala um.