143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tekur hér dæmi af aðildarsamningi Noregs og dregur af honum víðtækar ályktanir fyrir Ísland. Fyrirgefið, er hægt að spyrja hv. þingmann: Er Ísland olíuríki eins og Noregur? Er Ísland iðnríki með sama hætti og Noregur? Ó, nei. Þýðing sjávarútvegs í efnahagslífi Íslands er margföld á við þýðingu sjávarútvegs í efnahagslífi Noregs.

Það er einfaldlega þannig, hv. þingmaður, að menn komast ekkert fram hjá staðreyndum þessa máls. Við lögðum upp með í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar sérlausn innan ramma sjávarútvegsstefnunnar sem væri varanleg. Það veit Evrópusambandið. Á þeim grundvelli segir stækkunarstjórinn: Ég er sannfærður um að ég hafi lausnir fyrir ykkur. Hann segir það ekki bara í prívatsamtölum, það er sagt í opinberum yfirlýsingum.

Það er ekki hægt að halda áfram þessu þrasi um tjakkinn, hv. þingmaður. Það er ekki samboðið stjórnarmeirihlutanum að reyna að halda því fram að það sem viðsemjandinn hefur sagt skýrum orðum sé bara ómark vegna þess að þessir tveir flokkar, (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru búnir að ákveða að það sé (Forseti hringir.) óhjákvæmilegt að fara erindisleysu í samningum (Forseti hringir.) við aðrar þjóðir (Forseti hringir.) af því þeir eru svo huglausir í samningum (Forseti hringir.) við aðrar þjóðir.