143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í máli mínu áðan eru mýmörg dæmi um varanlegar undanþágur (Gripið fram í: Sérlausnir.) — varanlegar sérlausnir, fyrst menn vilja vera í þessum orðhengilshætti. (Gripið fram í.) Ég vitna í hv. fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, ég veit að ég þarf að kynna hann fyrir hv. þingmanni því hann hefur ekki verið það lengi í Framsóknarflokknum að hann þekki hann nema af afspurn. Sá ágæti maður, Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra, (Gripið fram í: Leiðtogi lífs þíns?) skrifaði afskaplega góða — já, það getur vel verið að hv. þingmanni finnist hann vera leiðtogi lífs míns en ekki síns, það segir þá kannski eitthvað um það hvernig komið er fyrir Framsóknarflokknum nú á þeirri undarlegu vegferð sem hann er á í öllum málum er varða þjóðarhagsmuni. Þar er skýrt tekið fram að hægt sé að fá varanlegar sérlausnir.

Ég rakti áðan að ekki væri dæmi um að menn hefðu fengið varanlegar sérlausnir í sjávarútvegsmálum (Gripið fram í.)vegna þess að það eru heldur ekki dæmi um að þjóð með jafn ríka sjávarútvegshagsmuni og Ísland hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu, það eru bara ekki dæmi um það. Það er engin slík þjóð til. (Gripið fram í: Komdu með dæmi.) Það er algjörlega augljóst að (Gripið fram í: Eins og …) þegar við erum annars vegar og okkar hagsmunir eru annars vegar er eins hægt að fara fram með hugmyndir af þeim toga sem ég rakti áðan.

Hv. þingmaður getur lesið litla búta upp úr þessari skýrslu samhengislaust eins og hann kýs, ef hann heldur að það sanni eitthvað. En lykilatriðið er þetta: Meiri hluti utanríkismálanefndar lagði fram álit hér 2009 sem fólst í því að finna ætti sérlausnir innan ramma hinnar almennu sjávarútvegsstefnu fyrir Ísland sem væru varanlegar. Evrópusambandið veit það og forvígismenn Evrópusambandsins hafa sagt að á þeim grundvelli séu þeir tilbúnir (Forseti hringir.) að semja. Það er staðreyndin, (Forseti hringir.) hv. þingmaður.