143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég las upp hér var efnislega úr skýrslunni þar sem fjallað er um sjávarútvegsmál. (Gripið fram í.)Hv. þm. Árni Páll Árnason er einmitt að gera það sem hann sagði sjálfur, hann er að slíta samhengislaust úr sambandi einfaldar setningar og talar núna um varanlegar sérlausnir. Þegar farið var af stað í þetta fullyrtu menn að hægt væri að fá varanlegar undanþágur (ÁPÁ: Hver er munurinn á undanþágu og sérlausn?) en ekki varanlegar sérlausnir sem Evrópusambandið gæti afnumið sjálft.

En við skulum rifja aðeins upp og mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt. Þegar farið var af stað í þessa vegferð hélt hann og flokkur hans því fram að við það eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu mundi trúverðugleiki okkar aukast. Hann hélt því fram að hægt væri að fá varanlegar undanþágur sem hrakið er núna í þessari skýrslu. Hann hélt því fram að hægt væri að ráðast í stóru málin strax, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Hann hélt því fram að það væri hægt að klára samning á 18 mánuðum. Hvað er að koma í ljós? Hann hélt því fram að við værum í (Forseti hringir.) sama ferli og Noregur var í, að kíkja í pakkann. Það er (Forseti hringir.) sýnt fram á það í skýrslunni að svo er ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Tíminn er búinn.) Af hverju eigum við að trúa (Forseti hringir.) hv. þingmanni núna þegar við skoðum (Forseti hringir.) þessa sögu sem eru samfelldar blekkingar frá (Forseti hringir.) A til Ö þegar kemur að þessu máli?