143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Það er alveg rétt, þetta er ekki auðvelt mál. Það er ekki auðvelt að segja að maður telji ekki rétt að Ísland taki þátt í tilteknu samstarfi en telji líka rétt að það sé þjóðarinnar að ákveða það. Þar af leiðandi þurfi maður, móralskt í raun og veru, að vinna að eins góðum samningi og mögulegt er að samstarfinu en hafa um leið djúpstæðar efasemdir um, hvað getum við sagt, kjarna samstarfsins. Þar þarf að vega og meta þau rök sem ég fór yfir áðan, hvort maður telji lýðræðisrökin yfirskipaðri hinum. Já, ég og mín hreyfing teljum þetta en við teljum eigi að síður að það sé þjóðarinnar að ákveða það.

Úr því að hæstv. ráðherra á hér annað andsvar vil ég endilega inna hann eftir sýn hans á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem við ræddum fyrir kosningar.