143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að við erum talsvert í því að líta um öxl hér þá lá fyrir talsvert af upplýsingum, eins og ég vitna til. Eitt af því sem rætt var til að mynda mjög mikið í tvíhöfðanefndinni var möguleikinn á að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Ég tók þátt í mikilli rannsóknarferð um það málefni þar sem svarið var afdráttarlaust neikvætt gagnvart því, svo dæmi sé tekið, þannig að það hefur verið stanslaus umræða, það hefur verið stanslaus upplýsingaöflun. En eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er þetta ekki óbreytanlegt fyrirbæri. Lissabonsáttmálinn kom til, sem breytti mjög miklu og það segir mér kannski að lærdómurinn sé að við þurfum að hafa þessi mál stöðugt til umræðu. Og eins og ég fór yfir hér áðan tel ég þessa skýrslu ekki heldur svara öllum þeim spurningum sem ég hefði viljað a.m.k. reifa í tengslum við þróun Evrópusambandsins.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu áður hefur það komið fram að það hefði verið mjög gild leið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsókn var lögð inn.