143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gerð var ágætis grein fyrir breytingum á aðildarferlinu í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar 2009. Ég er nú ekki með það ítarlega álit fyrir framan mig en ég man greinilega eftir því að þar var farið yfir þær breytingar sem orðið höfðu á aðildarferli þannig að það átti að liggja ljóst fyrir.

Hins vegar voru uppi orð, eins og bent er á í skýrslunni, til að mynda hjá þáverandi stækkunarstjóra, um að hugsanlega ætti þetta að geta gengið hraðar fyrir sig, en öllu ferlinu voru gerð skil í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar á sínum tíma þannig að það hefði a.m.k. átt að liggja ljóst fyrir hjá öllum hv. þingmönnum. Það lá líka ljóst fyrir að það sem hefur verið kallað aðlögun hér eða aðlögunarferli eða hvað það er kallað, snýst fyrst og fremst um að ríki hafi einhverjar áætlanir um hvernig þau skuli aðlagast en ekki endilega að það kalli á aðlögun áður en til aðildar kemur. Um það hefur verið bitist, en hins vegar (Forseti hringir.) má segja að bara með aðild okkar að EES-samningnum sé Ísland stöðugt að aðlaga regluverk sitt að einhverju leyti hinu evrópska.