143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég kæri mig ekki kollóttan um skýrslur og umræðu um Evrópusambandið. Ég fagna allri málefnalegri umræðu um Evrópusambandsmálin og hef ekkert á móti því að menn taki saman slíkar skýrslur. Það sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi fyrst og fremst átt við er að ríkisstjórnin verður aldrei bundin af einhverju slíku.

Ég vil nú segja varðandi þá skýrslu sem hér er komin fram að ég fagna því að hún virðist ætla að verða málefnalegt innlegg eða grundvöllur fyrir málefnalega umræðu. Ég þóttist skynja að margir óttuðust að of mikil slagsíða yrði í skýrslunni, en ég heyri ekki miklar kvartanir þess efnis hér í dag.

Varðandi það að í einhverri annarri skýrslu sem komi fram á næstu vikum verði ríkara hagsmunamat vil ég segja þetta: Hagsmunamat í tengslum við Evrópusambandsmálin er mjög breitt og stórt orð. Það getur ekki einungis tekið til fjárhagslegra hagsmuna. Menn geta ekki bara reiknað sig til niðurstöðu um hvort það sé skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið. Það hagsmunamat verður að horfa til miklu fleiri þátta. Eitt af því sem ég varði tíma mínum í í ræðu minni var það atriði sem hvað mest hefur verið rætt um hér í þinginu, þ.e. hvort við Íslendingar getum stjórnað okkar eigin málum þegar kemur að sjávarútvegsstefnu, heildarafla á fiskimiðum okkar og öðru þess háttar. Það að við fáum ekki að láta íslenskar reglur gilda um þá hluti heldur Evrópusambandsreglurnar er ekki því til fyrirstöðu að sumir telja að hagsmunum okkar sé engu að síður betur borgið innan sambandsins af einhverjum öðrum ástæðum. Ég tel þetta t.d. vera slíkt grundvallaratriði í hagsmunavörslu okkar Íslendinga að við getum ekki hvikað frá þessu samningsskilyrði. (Forseti hringir.) Það gildir jafnvel þó við værum búin að reikna okkur til einhvers (Forseti hringir.) hagnaðar í styrkjakerfunum eða (Forseti hringir.) einhvers staðar annars staðar þannig að ef menn ætla að láta fara fram hagsmunamat þá verður það líka að vera (Forseti hringir.) pólitísks eðlis.