143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi gengið aðeins of langt í þeirri ályktun sinni að ég hafi á sínum tíma talið að það gengi ekki lengur fyrir okkur Íslendinga að vera utan Evrópusambandsins. Ef viðkomandi grein er lesin í heild sinni og sett í samhengi við þá atburði sem þá voru nýskeðir og það sem fram undan var þá sér hann að þar er ég og hæstv. menntamálaráðherra að ræða um mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn virki lýðræðið til að komast að niðurstöðu í þessu stóra máli.

Í millitíðinni hafa komið nokkrar ályktanir frá Sjálfstæðisflokknum þar sem einmitt er gengið út frá því að ekki verði sótt um aðild að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hið mikilvæga umboð sem ríkisstjórn hvers tíma verður að hafa sem veganesti ef ekki liggja að minnsta kosti fyrir skýr kosningaúrslit þar sem til valda komast flokkar sem hafa talað skýrt fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Nú verð ég að viðurkenna að mér finnst við vera dálítið föst á sama staðnum varðandi nokkra grundvallarþætti þessa máls, þar með talið um möguleikann á sérstökum undanþágum. Ég hafði vonast til að skýrslan yrði gott innlegg og málefnalegt inn í þá umræðu. Ég vona að hv. þingmaður hafi tekið eftir því sem segir í skýrslunni að sumar undanþágur eru ekki samanburðarhæfar við möguleika nýs umsóknarríkis, sumar undanþágur sem er að finna í sögu sambandsins. Ég vona líka að hann hafi tekið eftir því þar sem segir að það hafi aldrei neitt umsóknarríki fengið varanlega undanþágu frá sjávarútvegs- eða landbúnaðarstefnum. Þetta er mikið kjarnaatriði í skýrslunni sem við hljótum að taka alvarlega nema menn einfaldlega trúi ekki því sem segir í skýrslunni og ætli sér einhvern veginn að færa rök fyrir því hvers vegna það kunni að vera rangt.