143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef margflutt hér í dag um það hvernig þetta blasir við mér. Ég vona að hv. þingmaður geti a.m.k. virt þann vilja minn til að leita til þjóðarinnar með stórar ákvarðanir sem birtist t.d. í þeirri áherslu sem ég legg á það að við ljúkum endurskoðun stjórnarskrárinnar um þetta efni. Mér finnst hann heldur ekki hafa svarað með mótrökum því sem ég hef bent á sem meginástæðuna fyrir því að ég tel þetta í raun og veru óframkvæmanlegt. (ÖS: Hvað með samvisku ráðherrans?)

Hins vegar hefur hv. þingmaður lagt okkur til heilmiklar heimildir um það hvað mundi gerast ef út í þann leiðangur væri ráðist. Hann hefur lagt okkur til í nokkuð frægri bók (Gripið fram í.) nákvæmar lýsingar á því hvers konar ástand skapast leggi menn af stað í slíkan leiðangur, að ganga í Evrópusambandið, án þess að fyrir því sé pólitísk forusta og raunverulegur pólitískur vilji. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega fróðleg lesning. Þá giltu reyndar þau lögmál að annar flokkurinn vildi fara inn en ekki hinn. Sú staða sem við erum að velta upp hér væri sú að (Forseti hringir.) hvorugur flokkurinn vildi fara inn. Og hvers konar bók mætti skrifa um það ástand sem þá mundi skapast?