143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Leyfðu mér að útskýra meinta nauðhyggju. Ég held því einfaldlega fram að eina leiðin til að komast að einhverri vitiborinni niðurstöðu í þessu áratugalanga deilumáli sé að sækja um að fá samning. Það er nú öll nauðhyggjan.

Svo talaði ég líka um það og rakti hér að við hefðum átt í miklum samskiptum, formlega og óformlega og á öllum sviðum, við Evrópuríki og Evrópusambandið. (Gripið fram í: Og Bandaríkin.) Það er, held ég, einn lykilþátturinn í hagsæld Íslendinga og ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur sem hafi áttað sig hvað best á gildi þeirrar samvinnu, ekki síst í efnahagslegu tilliti. (Gripið fram í.)

Spurningin sem blasir við núna er hvort það sé rökrétt fyrir hagsmuni Íslendinga að ganga alla leið í Evrópusambandið. Hv. þingmaður lýsti hérna veruleika, að við þægjum hluti frá Brussel og að við ættum að fara til Brussel til að ná í styrki og hitt og þetta. Er hann ekki að lýsa veruleikanum nákvæmlega eins og hann er núna? Og er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að þriðjungur af stjórnarfrumvörpum sem lögð eru fram hér koma beint frá Brussel án þess að við höfum haft nokkra aðkomu að þeirri lagasetningu? Það eru tvær leiðir til þess að taka á því máli ef við höfum áhyggjur af þeim lýðræðishalla, það er annað hvort að fara inn og taka þátt í ákvarðanatökunni eða að hætta í EES, það eru þessir tveir valkostir. (Gripið fram í.)

Mér finnst að þjóðin eigi að fá þessa valkosti og ég tel að það sé til mikils að vinna að ná góðum samningi við Evrópusambandið. Ég held að það sé hægt vegna þess að ég tel að það sé betra að fara alla leið í Evrópusambandið með góðum samningi en að vera ekki í Evrópska efnahagssvæðinu, svo dæmi sé tekið.

Að lokum langar mig að tala aðeins um almannahagsmuni og sérhagsmuni. Mér finnst ein stærsta röksemdin fyrir því að ganga í Evrópusambandið vera að það er sigurstrangleg leið til þess að opna hagkerfið almennt, að búa til frjálst, opið hagkerfi á Íslandi með lágum vöxtum, ef við höldum vel á spöðunum, með lægra matvælaverði (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og búa til almennt betri grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnulíf í stað þess að hafa (Forseti hringir.) einhæft atvinnulíf.