143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er reyndar sérstök skoðun hv. þingmanns að landbúnaðarkaflinn sé ekki vandamál, ég deili ekki þeirri skoðun með þingmanninum.

Förum þá í dæmin sem hv. þingmaður nefndi til jafnaðar við þessa mögulegu undanþágu Íslands. Það er dæmið varðandi heimskautalandbúnaðinn sem hv. þingmaður náði ekki að svara vegna þess að ég spurði svo margra spurninga. Ef hv. þingmaður gæti svarað þeirri spurningu: Hvernig getur hann jafnað þeirri ákvörðun sem byggðist á því að halda þessu svæði í byggð við það að semja við þjóð sem er með öflugan sjávarútveg, öfluga atvinnugrein, og auðlind sem aðrar þjóðir vilja vissulega komast í?

Síðan tók hv. þingmaður líka það dæmi sem Kanaríeyjar fengu, sem tiltekið er í skýrslunni á bls. 64, sérreglur fyrir tiltekin svæði eða lendur. Vissulega var það þannig að það var ákveðið við inngöngu Spánar í Evrópusambandið að reglur um sjávarútveg skyldu ekki gilda fyrir Kanaríeyjar. En því var síðan breytt og nú gildir þetta um hafsvæðin umhverfis Kanaríeyjar, þannig að slíkar ákvarðanir eru ekki varanlegar ákvarðanir. Því er ekki hægt að segja að það sé lausn sem mundi henta okkur Íslendingum — alla vega mundi það ekki vera mér að skapi að semja um einhvern aðlögunartíma fyrir íslenskan sjávarútveg þar sem við fengjum hugsanlega að ráða okkar auðlindum sjálf í fimm ár, eða hvað sem það nú væri. Það er einfaldlega ekki hægt að líkja þessu tvennu saman og ég kalla eftir betri dæmum um að menn telji raunhæft að við fáum einhverja undanþágu frá grundvallarreglum og sjónarmiðum og í raun meginreglum Evrópusambandsins um að allir skuli vera jafnir.